islendingur-lest-i-eldsvoda-i-bilskur-a-heimili-sinu-a-tenerife

Íslendingur lést í eldsvoða í bílskúr á heimili sínu á Tenerife

Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri lést í eldsvoða sem gaus upp í bílskúr í heimahúsi við Costa Adeje á Tenerife. Eldsvoðinn átti sér stað að morgni sunnudags en samkvæmt fjölmiðlum ytra barst neyðartilkynning um eldinn kl.7.30. Miðillinn El Día greinir frá því að maðurinn sé íslenskur ríkisborgari.

Viðbragðsaðilar frá Adeje og San Miguel komu fljótt á vettvang og slökktu eldinn sem hafði læst sig í þrjá bíla í bílskúrnum. Inni í einum þeirra fannst maðurinn látinn.

Í umfjöllun El Día kemur fram að allt bendi til þess að um slys hafi verið að ræða og ekki leiki grunur um að neitt saknæmt hafi átt sér stað. Kemur fram í umfjöllun miðilsins að maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis og kunni að hafa sofnað í bílnum eftir að hafa kveikt sér í sígarettu.

Íslendingasamfélagið ytra er harmi slegið enda hafði maðurinn verið búsettur ásamt fjölskyldu sinni um nokkurt skeið ytra og var virkur þátttakandi í félagslífi Íslendinga á eyjunni.

Costa Adeje er á suðurhluta Tenerife-eyju og er afar vinsæll áfangastaður Íslendinga ásamt hinum nærliggjandi Playa Américas og Los Cristianos. Samkvæmt heimildum DV var hinn látni búsettur á eyjunni ásamt fjölskyldu sinni.


Posted

in

,

by

Tags: