6 C
Grindavik
26. febrúar, 2021

Íslenskar ofurhetjur fyrir Barnaspítala Hringsins

Skyldulesning

Vinirnir Dagur Lárusson og Úlfar Konráð Svansson gáfu út á dögunum teiknimyndasöguna, Landverðirnir. Bókin fjallar um tvær íslenskar ofurhetjur sem heita Atlas og Avion. Strákarnir skrifuðu söguna og fengu síðan með sér í lið teiknarann, Fannar Gilbertsson, til þess að teikna myndirnar fyrir bókina.

Hægt er að nálgast bókina í Bónus, Hagkaup, Nexus, Heimkaup, Fjarðarkaup og Eymundsson en strákarnir ákváðu strax í byrjun að allur ágóði höfundanna færi til Barnaspítala Hringsins.

Dagur og Úlfar eru nýjustu gestir Hafsteins Sæmundssonar í hlaðvarpinu hans, Bíóblaður.

Íslenskar ofurhetjur

Það var Úlfar sem átti fyrst hugmyndina að þessu verkefni en hann hafði séð leikarana Tom Holland og Jake Gyllenhaal klæða sig upp sem Spider-Man og Mysterio og heimsækja krakka á spítala.

„Þá datt mér í hug að það gæti verið gaman að vera svona ofurhetja en ég er enginn fótboltamaður eða einhver hetja fyrir börnum. Af hverju eru ekki til þessar íslensku ofurhetjur, hugsaði ég. Væri það ekki skemmtilegt? Maður þekkir auðvitað Íþróttaálfinn og þess háttar, þannig að þá small þetta einhvern veginn saman,“ segir Úlfar.

Þar sem grunnhugmyndin tengdist barnaspítala, þá kom ekkert annað til greina hjá þeim félögum en að gera þessa bók fyrir Barnaspítala Hringsins.

„Þetta ferli, þessi bók. Þetta er allt fyrir Barnaspítalann. Hugmyndin var alltaf að gera þetta fyrir Barnaspítalann. Til þess að við gætum komið inn á Barnaspítalann sem ofurhetjurnar, glatt börnin og styrkt Barnaspítalann með sölu á þessari bók sem við erum að gera. En út af COVID, þá höfum við ekki getað farið inn á Barnaspítalann, sem okkur langar svo mikið til þess að gera. Við höfum hins vegar náð að fara í tvær heimsóknir. Eina þar sem við vorum bara fyrir utan og vorum að vinka krökkunum og við fórum og réttum starfsmanni boli með Atlasi og Avion. Síðan höfum við einnig náð að gefa þeim nokkur eintök af bókinni. Fyrir jól, þá viljum við svo mikið fara í almennilega heimsókn. Það er kannski hæpið að við getum það en við viljum allavega gera eitthvað skemmtilegt” segir Dagur.

Fundu Fannar

Þegar hugmyndin var komin og strákarnir byrjaðir að skrifa sjálfa söguna, þá komust þeir fljótt að því að þeir þyrftu að fá með sér í lið einhvern mjög færan teiknara. Teiknarinn sem varð fyrir valinu heitir Fannar Gilbertsson en hann hafði áður gert teiknimyndasöguna, Gen-01.

„Einn daginn ákvað ég að labba yfir í Smáralind og skoða bækur. Fyrsta bókin sem ég tek upp er bókin Gen-01 sem Fannar teiknaði. Ég skoðaði myndirnar og ég sendi strax á Úlfar: „Ég er búinn að finna gæjann sem þarf að vera með okkur í Landvörðunum“,“ segir Dagur og bætir við:

„Hann er magnaður, þessi drengur. Hann er svo hæfileikaríkur og það var svo mikil guðsgjöf að finna þennan mann og fá hann til þess að teikna fyrir okkur. Hver einasta mynd sem hann teiknaði, það var eins og þær hefðu verið teknar úr hausnum á okkur. Við vorum alltaf jafn undrandi á því hversu góður hann er.“

Í þættinum ræða strákarnir einnig hvaða ofurkraft þeir væru sjálfir til í að vera með, hvernig þeir fundu sinn búningahönnuð í Pakistan, hvernig allt ferlið var í kringum sjálfa bókina, hversu margar Landvarða bækur þeir hafa hugsað sér að gera, hversu hrifnir þeir eru af ofurhetjubíómyndum og margt, margt fleira.

Bíóblaður er á YouTube, Spotify og Apple Podcasts.

Innlendar Fréttir