Íslenskar og grænar lausnir kynntar Japönum Ísland mun ásamt Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð kynna grænar lausnir á heimssýningunni í Osaka í Japan árið 2025. Norðurlöndin sýna undir einum hatti á sýningunni. Búist er við að 28 milljónir manna muni heimsækja sýninguna.
„Norðurlöndin eiga sér langa sögu samvinnu. Það lá beint við að vinna þetta saman í ljósi þess að viðskiptaumhverfi þessara landa er mjög líkt og löndin hafa öll lagt áherslu á að þróa lausnir í þágu grænna umskipta,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, í tilkynningu sem barst frá Íslandsstofu.
Þar segir að Japan sé þriðja stærsta hagkerfi heims og því mikil viðskiptatækifæri. Norðurlöndin muni vinna saman að því að efla viðskiptasambönd landanna á sýningunni og lögð verði sérstök áhersla á grænar lausnir.
Þá hefur Norræna ráðherranefndin samþykkt að Norðurlöndin verði sálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Samstarfið í kringum heimssýninguna sé því í samræmi við þá stefnu.
Efnt hefur verið til hönnunarsamkeppni fyrir gerð sýningarskála Norðurlandanna sem mun rísa á tæplega þúsund fermetra svæði á sýningunni. Þar er gert ráð fyrir sýningarsvæðinu sjálfu, kaffihúsi, munaverslun auk ráðstefnu- og fundaraðstöðu. Heimssýningin verður dagana 13. apríl til 13. október árið 2025.