-1 C
Grindavik
21. janúar, 2021

Íslenskt fyrirtæki framleiðir eldsneyti í Svíþjóð

Skyldulesning

José Antonio Navas Castillo, Daníel Fjeldsted, Jón Marz Eiríksson og …

José Antonio Navas Castillo, Daníel Fjeldsted, Jón Marz Eiríksson og Olav Sommerset Risdal fyrir framan tilraunaverksmiðju CRI í stáliðjuveri SSAB í Luleå í Svíþjóð.

Frá því í lok október hefur íslenska tæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) framleitt grænt eldsneyti í Luleå í norður Svíþjóð, með nýrri framleiðsluaðferð sem að hluta var þróuð hér á landi. Eldsneytið verður notað til farþegaflutninga milli Svíþjóðar og Þýskalands.

Frá þessu greinir fyrirtækið í tilkynningu. Segir þar að tilraunaverksmiðjan, sem sé sú fyrsta sinnar gerðar í heiminum, nýti afgas úr járnbræðsluofni sænska stálframleiðandans SSAB til framleiðslu á metanóli.

Mikilvægur áfangi í samstarfsverkefni

„Með þessari íslensku tækni mætti draga markvisst úr losun við stálframleiðslu, en nærri tíunda hluta af allri losun koltvísýrings má rekja til þess iðnaðar,“ segir í tilkynningunni.

Að sögn Ólafs Þórs Stefánssonar, yfirmanns tækniþjónustu CRI, sem unnið hefur að framleiðslunni í Luleå ásamt fjórum öðrum starfsmönnum, hefur verkefnið náð þeim árangri sem að var stefnt. Framleitt hafi verið um eitt tonn af metanóli á dag.

Þá hafi margvíslegar prófanir á ferlinu verið framkvæmdar sem gefið hafi góða raun. Niðurstöðurnar verði mikilvægur áfangi í samstarfsverkefninu FReSMe sem hlaut tæplega tveggja milljarða króna styrk úr rannsóknarsjóðum Evrópusambandsins.

Erfitt að draga úr losun

„Verkefnið í Svíþjóð hefur verið unnið við erfiðar aðstæður þar sem fyrri áætlanir og ferðalög hafa farið úr skorðum á þessu ári. Starfsmenn okkar sem hönnuðu, skipulögðu og framkvæmdu þetta verk stóðu sig frábærlega,“ er haft eftir Ingólfi Guðmundssyni forstjóra CRI.

„Auk verkefnisins í Svíþjóð erum við þegar að hanna sambærilega verksmiðju í fullri stærð fyrir stáliðnað í Kína. Stáliðnaður er í örum vexti og erfitt að draga úr losun nema með föngun og nýtingu. Við gerum ráð fyrir því að tekjur af grænum lausnum fyrir stáliðnað verði ein af stoðum í vexti CRI á næstu árum.“

Tvö tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af stáli

Við framleiðsluna er einnig beitt nýrri tækni sem þróuð hefur verið í Hollandi til að aðskilja gastegundir úr útblæstri frá stálframleiðslu og öðrum sambærilegum iðnaði. Vetni og koltvísýringur er unninn úr afgasinu, auk þess sem rafgreinir er notaður til viðbótarframleiðslu á vetni. ETL-tækni CRI sér síðan um að umbreyta koltvísýringi og vetni í metanól. Þessi sama tækni var fyrst notuð í verksmiðju CRI í Svartsengi.

Að meðaltali losar stálframleiðsla yfir tvö tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af stáli sem framleitt er. Við framleiðsluna fellur einnig til talsverð orka, sem oft er vannýtt. Með því að fanga kolefnið úr framleiðsluferlinum og framleiða metanól er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, draga úr losun og skapa aukin verðmæti. Þar sem metanólið er nýtt í öðrum framleiðsluferlum eða sem eldsneyti, minnkar jafnframt þörfin fyrir notkun á jarðefnaeldsneyti.

Búa sig undir kvaðir um minni losun

Á fyrri hluta næsta árs verður metanólið nýtt sem skipaeldsneyti á farþegaferjuna Stena Germanica á leið sinni milli Gautaborgar í Svíþjóð og Kiel í Þýskalandi. Aðalvélum ferjunnar var breytt árið 2015 og getur hún nýtt metanól sem eldsneyti, en það dregur úr sót- og brennisteinsmengun. Í dag eru á annan tug stórra flutningaskipa og ferja, auk smærri skipa, sem nota metanól sem eldsneyti. Skipafélög eru að búa sig undir kvaðir um minni losun og horfa í auknum mæli til þess að nota grænt metanól í stað olíu.

Auk CRI eru í FReSMe verkefninu 10 evrópskir samstarfsaðliar: i-deals (frá Spáni), TNO (Hollandi), Swerim (Svíþjóð), SSAB (Svíþjóð), Array Industries (Hollandi), Tata Steel (Hollandi), Stena Line (Svíþjóð), Kisuma Chemicals B.V. (Hollandi), NIC – National Institute of Chemistry (Slóveníu) og Politecnico di Milano (Ítalíu).

Innlendar Fréttir