7 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Íslenskur maður safnar liði í hópkynlíf á Facebook – „Allir koma með sitt eigið dót“

Skyldulesning

Í Facebook-hópnum Kúrufélaga grúppan, sem telur tæpa 10 þúsund meðlimi, kennir ýmissa grasa. Hópurinn er, samkvæmt lýsingu, fyrir „þá sem vilja kúr, samband, spjall, deit eða bara vini“. Oft hafa skjáskot úr hópnum vakið athygli á samfélagsmiðlum og gerðist það aftur nýlega.

Íslenskur notandi á samfélagsmiðlinum Twitter birti í lok síðustu viku skjáskot úr hópnum þar sem verið var að óska eftir fólki til að stunda saman hópkynlíf. Notandinn birti í raun tvö skjáskot, skjáskotið úr hópnum og skjáskot af auglýsingu frá Icelandair. „Tvö screenshot frá liðinni viku sem sanna að Covid er búið,“ var síðan skrifað með skjáskotunum.

Algengt er að fólk setji inn grín skilaboð í hópinn en þó nota margir hann fyrir alvöru fyrirspurnir. Þessi færsla sem um ræðir virðist falla undir það seinna. „Ég og vinkona erum að hugsa okkur um að reyna að safna í ágætt hópkynlíf í bústaðnum hjá mér,“ segir íslenskur maður í færslu sem hann birti í hópnum.

Maðurinn segir að best væri ef kynjahlutfallið verði jafnt en þó megi vera fleiri konur. „Allir koma með sitt eigið dót,“ segir maðurinn og biður fólk um að senda sér einkaskilaboð hafi það áhuga. „Fullum trúnaði heitið og helst fólk sem er alvara,“ segir maðurinn að lokum.

Nokkuð var um athugasemdir við færsluna áður en stjórnandi hópsins ákvað að loka fyrir þær. Ekki var gefin upp ástæða fyrir lokuninni á athugasemdunum. Áður en athugasemdunum var lokað hafði meðal annars einn skrifað „áhugavert“ við færsluna.

Þá skrifaði sá sem birti upphaflegu færsluna að þetta yrði ekki haldið fyrr en eftir áramót. Miðað við athugasemd mannsins virðist vera sem einhver áhugi hafi verið hjá fólki í hópnum. „Ætla að ræða við alla sem hafa áhuga, finna sameiginlegan dag eða helgi og almennt vera viss um að allir séu á sömu síðu. Annars verður hætt við allt saman.“

Innlendar Fréttir