5.3 C
Grindavik
24. september, 2021

Ísraelsmenn sagðir undirbúa sig fyrir mögulegar árásir Trump á Íran

Skyldulesning

Forsvarsmönnum herafla Ísrael hefur verið sagt að undirbúa sig fyrir mögulegar árásir Bandaríkjanna á Íran, áður en Donald Trump lætur af embætti í janúar. Þetta hefur Axios eftir heimildarmönnum sínum í Ísrael en tilefnið er ekki einhverjar sérstakar upplýsingar um mögulegar árásir á Íran, heldur það að Ísraelar telji að síðustu vikur Trumps í Hvíta húsinu verði mjög viðkvæmar.

New York Times sagði frá því í síðustu viku að Trump hefði leitað til ráðgjafa sinna og starfsmanna um það hvort hann gæti gert árásir á Íran til að stöðva kjarnorkuþróun ríkisins. Þær vangaveltur forsetans voru víst til komnar vegna skýrslu um birgðir Íran af auðguðu úrani, sem mögulega væri hægt að nota í kjarnorkuvopn.

Samkvæmt New York Times voru ráðgjafar forsetans, þar á meðal Mike Pence varaforseti, Mike Pompeo utanríkisráðherra, Christopher C. Miller starfandi varnarmálaráðherra og Mark A. Milley, formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, ekki hlynntir því að gera árásir á Íran og vöruðu við því að slíkt gæti dregið Bandaríkin inn í mun umfangsmeiri átök og það í síðustu vikum forsetatíðar Trumps.

Eiga mun meira úran en áður

Mögulegar árásir myndu líklegast beinast gegn Natanz í Íran, þar sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin sagði í áðurnefndri skýrslu að Íranir ættu nú um tólf sinnum meira af auðguðu úrani en þeir mættu eiga, samkvæmt kjarnorkusamkomulaginu svonefnda sem Trump rifti einhliða árið 2018.

Samkomulagið var á milli Íran, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Íran. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Íran að hætta við þróun kjarnorkuvopna og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Axios segir að Christopher Miller, starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi rætt tvisvar sinnum við Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísrael, á undanförnum tveimur vikum.

Þar að auki mun Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hafa farið til Sádi-Arabíu á sunnduaginn og hitt þar fyrir Mohammed Bin Salman, krónprins, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Pompeo var þá á ferð um Mið-Austurlönd og ræddi þar við þjóðarleiðtoga um Íran og á þeim tíma flugu Bandaríkin B-52 sprengjuþotum yfir svæðið og þótti það skýr skilaboð til Írana.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir