-1 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Ítalska lögreglan handtók 38 grunaða mafíumeðlimi

Skyldulesning

Ítalska lögreglan segist hafa veitt Foggia-mafíunni í Puglia þungt högg en ofbeldisverk og glæpir tengdir mafíuhópum í héraðinu hafa aukist mjög undanfarin ár. Lögreglan handtók í gær 38 manns sem eru grunaðir um tengsl við mafíustarfsemi í héraðinu og handtökuskipanir hafa verið gefnar út á hendur fleiri grunuðum mafíumeðlimum.

„Foggia-mafían er óvinur ríkisins númer eitt,“ sagði Federico Cafiero de Raho, sérstakur ríkissaksóknari á  sviði mafíumála, um stöðuna. „Það er ekki einn einasti hluti hagkerfisins sem sleppur við fjárkúganir Foggia-mafíunnar,“ sagði hann einnig og átti þar til dæmis við matvælaiðnaðinn, landbúnað, byggingaiðnaðinn auk happdrætta og fjárhættuspila.

Puglia er það hérað sem er hællinn á hinni stígvélalöguðu Ítalíu. Societe Foggiana, mafían í héraðinu, hefur verið sérstaklega ágeng og ofbeldisfull síðustu þrjú árin.

Lögregluaðgerðir gærdagsins beindust gegn þremur ráðandi „fjölskyldum“ sem stýra Societa Foggiana. Lögreglan segir að þessar þrjár fjölskyldur takist á í blóðugri baráttu um yfirráð yfir landsvæðum og um áhrif en samtímis starfi þær saman við að styrkja tök mafíunnar á samfélaginu.

Innlendar Fréttir