10.3 C
Grindavik
16. september, 2021

„Jákvæðar fréttir hafi verið að blinda okkur“

Skyldulesning

Markaðsverð á orku segir ESB

Hálfur september

Björn Bjarnason á ferð

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.

Ljósmynd/Almannavarnir

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að jákvæðar fréttir undanfarið gætu hafa blindað fólk þannig að slakað var á í sóttvörnum og það komi nú fram í hækkandi tölum yfir smit.

Af þeim 20 smitum sem greindust í gær og greint var frá í dag voru ellefu manns utan sóttkvíar. Hefur fjöldi smita hækkað síðustu daga og segja bæði Rögnvaldur og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að vísbendingar séu um að þróunin stefni í veldisvöxt. 

Eitt tilvikið orðið nokkuð stórt og margir veikst

„Við upplifum að við séum að sjá afleiðingar helgarinnar,“ segir Rögnvaldur um hækkandi tölur um dagleg smit í samtali við mbl.is og vísar þar til þess að fólk hafi verið að hittast bæði í gleðskap og í minni hópum til dæmis innan fjölskyldna, auk þess sem jólaverslunin hafi að einhverju leyti farið af stað.

Segir Rögnvaldur að eitt tilvikið um helgina, þar sem um samkomu var að ræða, sé orðið nokkuð stórt og margir hafi veikst sem þar voru. Þá komi dómínóáhrif út frá smitunum þar sem þeir sem hafi veikst hafi snertifleti víða. „Við höfum talsverðar áhyggjur af þessu,“ segir Rögnvaldur, en tekur fram að um fleiri en eina samkomu hafi verið að ræða þar sem smit kom upp, þó eitt tilvikið sé verst.

„Við ætlum ekki að refsa fólki fyrir að segja rétt frá“

Spurður hvort tekist hafi að ná utan um þessar samkomur segir Rögnvaldur að talsverðan tíma hafi tekið að fá upplýsingar um alla þá sem hafi verið á viðburðunum. Segir hann að fólki líði illa þegar tilvik sem þetta komi upp og greinilegt sé að smitskömm sé til staðar. Spurður hvort mögulegar sektir vegna sóttvarnalagabrota geti spilað þar inn í segir Rögnvaldur að svo kunni að vera. Hann vilji þó taka fram að allar þær upplýsingar sem veittar séu smitrakningarteyminu muni ekki leiða til sekta. „Við ætlum ekki að refsa fólki fyrir að segja rétt frá,“ segir Rögnvaldur og bætir við að smitrakningin sé ekki notuð til að dæma eða skamma fólk.

Annað tilfelli staðfest í skrifstofuturni við Kringluna

Í gær var greint frá tilfelli sem kom upp í skrifstofuturni við Kringluna, en misskilnings gætti á tíma þar sem fréttamiðlar höfðu greint frá því að smitið væri í verslunarmiðstöðinni sjálfri. Rögnvaldur segir leiðinlegt að þessi misskilningur hafi komið upp og tengist því að smitið kom upp í samtengdu húsi við verslunarmiðstöðina sem er svo líka við götuna Kringluna.

Hann staðfestir við mbl.is að nú séu tvö staðfest smit í tengslum við skrifstofuturninn, en að ekki sé augljós tenging á milli þeirra, en þau komu upp á sitt hvorri hæð byggingarinnar. Unnið sé að því að rekja þessi smit.

Sleppi sameiginlegri laufabrauðsgerð og jólabakstri

Miðað við þróun smita sem greinst hafa segir Rögnvaldur að hann hafi áhyggjur af aðventunni. Nú skipti öllu máli að höfða til fólks að gera hlutina öðruvísi en við hefðbundið jólahald. „Við frestuðum þjóðhátíð, vorum með öðruvísi páska og núna þarf að taka aðventuna með sama hætti,“ segir hann og nefnir sem dæmi að fólk eigi að sleppa sameiginlegri laufabrauðsgerð og að hittast saman og baka smákökur. „Við vitum að þetta er erfitt. Það eru sterkar hefðir og mikill hátíðleiki fyrir marga. En ef við ætlum að ná því að jólin verði flestum bærileg þurfum við að herða úthald og halda í okkur,“ segir Rögnvaldur.

Spurður um ástæður þess að nú sé aftur uppsveifla í fjölda daglegra smita segir Rögnvaldur að svo virðist vera sem úthaldið sé við að bresta hjá mörgum. Þá telur hann að fréttir af bóluefnum og lækkandi tölum í síðustu viku gætu hafa haft óvæntar afleiðingar. „Það má orða það þannig að jákvæðar fréttir hafi verið að blinda okkur,“ segir hann. Fólk hafi í auknum mæli slakað á sóttvörnum og orðið værukærara. 

Fólk kjósi með fótunum sé ekki gætt að fjarlægðamörkum

Nú þegar jólaverslunin er farin af stað segist Rögnvaldur biðla til verslunareigenda að þjappa fólki ekki saman í lítil rými og það eigi líka við um aðstöðu fyrir viðskiptavini til að bíða fyrir utan verslanir ef svo ber undir. „Fólk á að kjósa með fótunum og fara annað,“ segir Rögnvaldur ef ekki sé nægjanlega gætt að fjarlægðarmörkum.  Þá segir hann að sumar verslanir hafi verið með tilboð þar sem fólk þarf að koma á staðinn á ákveðnum tíma. Slíkt bjóði upp á hópmyndun og sé ekki æskilegt.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir