Aðeins 27% Japana vilja að Ólympíuleikarnir fari fram á fyrirhugðum tíma en þeir verða að óbreyttu haldnir í Tókýó 23. júlí til 8. ágúst. Leikunum var frestað vegna Covid-19 faraldursins en þeir áttu að fara fram 24. júlí til 9. ágúst sl.
Leikarnir bera enn yfirskriftina „Ólympíuleikarnir 2020“.
Í könnun sem ríkisfjölmiðillinn NHK greindi frá sögðust 30% vilja hætta við Ólympíuleikana en 31% sagðist vilja fresta þeim frekar.
Athygli vekur að stuðningur við leikana hefur snarminnkað frá því í október en þá sögðust 40% vilja að Ólympíuleikarnir færu fram næsta sumar. Í millitíðinni hefur þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins gengið yfir Japan.
Í sömu könnun, frá því í október, sögðust 23% vilja hætta við leikana og 25% fresta þeim.
Ólympíuleikarnir eru sagðir munu kosta japanska ríkið meira en 12 milljarða Bandaríkjadala.