7 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Járnfrúin vekur enn heitar tilfinningar

Skyldulesning

Margaret Thatcher vekur enn heitar tilfinningar meðal Breta en ákvörðun bæjarráðsins í heimabæ hennar Grantham um að verja 100.000 pundum í athöfn þar sem stytta af „Járnfrúnni“ verður afhjúpuð hefur myndað gjá meðal íbúa.

Talsmenn bæjaryfirvalda hafa varið ákvörðunina og segja að fjármunirnir verði sóttir í vasa einkaaðila en 2.300 manns melduðu sig á Facebook-viðburð, þar sem stefnt var að því að „eggja“ styttunina við athöfnina.

Viðburðinum virðist hafa verið eytt.

Forsaga málsins er sú að umrædd stytta hefur nú verið til um nokkurt skeið en fyrst stóð til að koma henni fyrir í Westminster. Því var hins vegar hafnað árið 2018, á þeim forsendum að ásýnd Thatcher myndi draga að skemmdarvarga og mótmælendur.

Styttan var þá boðin Grantham en hefur verið í geymslu þar til nú.

Guardian hefur eftir forsvarsmanni Verkamannaflokksins í bænum að fjáraustrið vegna afhjúpunarinnar sé „pervertískt“ þegar opinberir sjóðir séu að tæmast bæði á landsvísu og í einstaka sveitum.

About time, this warehouse is frightfully full and a little cold. https://t.co/XzoK3zOiYj @GranthamJournal

— Statue of Margaret Thatcher (@MaggiesStatue) January 4, 2020

Einn íbúa, Adam Burgess, gagnrýnir harðlega ákvörðun bæjarráðs á tímum þar sem sífellt fleiri verða heimilislausir og þurfa að leita á náðir svokallaðra matarbanka.

„Það hljóta að vera til betri leiðir til að verja þessum peningum. Að reisa styttu af einhverjum sem olli mikilli sundrung og gerði verkafólki erfitt fyrir er bara skíta ákvörðun, ef ég á að vera hreinskilinn.“

Ralph Harrisson er ósammála.

„Þetta er lítill bær sem hefur afrekað að ala manneskju sem er þekkt á alþjóðlega sviðinu og verður í sögubókunum. Ég skil að fólk hefur ólíkar skoðanir á Margaret Thatcher, hún er afar umdeild persóna, en þetta er spurning um afrek. Hún afrekaði þegar hún varð fyrsta konan til að verða forsætisráðherra.“

Guardian og Independent sögðu frá.

Innlendar Fréttir