Jerry Joseph var 15 ára undrabarn í körfubolta – Reyndist vera 22 ára karlmaður þegar komst upp um hann – DV

0
149

Jerry Joseph var vonarstjarna Odessa Permian menntaskólans í körfubolta árin 2009 og 2010. Hann leiddi lið sitt yfirleitt til sigurs og árið 2010 áttu flestir von á því að Jerry fengi ríflegan skólastyrk til háskólanáms út á getu sína í körfuknattleik.

En raunin var sú að Jerry Joseph hét í raun Guerdwich Montimere  og var ekki 15 ára gamall heldur 22 ára harðfullorðinn karlmaður.

Hann var löngu útskrifaður úr menntaskóla í Flórída þegar hann falsaði gögn til að komast inn sem nýnemi í Permian menntaskólann í Lubbock Texas.

Bjó heima hjá þjálfara

Hann sýndi strax hæfileika í körfunni og var þjálfari liðsins, Danny Wright, yfir sig hrifinn af hinu nýja liðsmanni. ,,Jerry” kvaðst vera frá Haiti og væri munaðarlaus þar sem foreldrar hans hefðu farist þar í jarðskjálfta.

Bauð Danny þá honum að búa hjá sér og fjölskyldu sinni.

Það leið rúmlega ár áður en upp komst um Guerdwich þegar að fyrrverandi þjálfari hans frá Flórída sá hann á körfuboltamóti í Arkansas. Hann lét skólayfirvöld Odessa Permian skólans þegar vita. Skólayfirvöld fóru aftur yfir gögn hans, og nú með öllu gagnrýnni augum og í kjölfarið var lögregla kölluð til.

,Jerry” – Guerdwich Montimere – var aftur á móti hreint ekki munaðarlaus. Hann var reyndar fæddur á Haiti en flutti á barnsaldri til Bandaríkjanna og var bandarískur ríkisborgari.

Hann hafði verið afar efnilegur í körfunni en ekkert undrabarn og ljóst að hans beið ekki styrkur í góðan háskóla.

Ekki bara lygar heldur einnig kynferðisbrot

Eðli málsins samkvæmt var Guerdwich orðinn öllu betri með knöttinn með árunum og ákvað einfaldlega að reyna aftur við veglegan skólastyrk. Með því að þykjast vera sjö árum yngri. Og merkilegt nokk, komst upp með það þetta lengi.

En það var fleira sem sumir segja hafa lokkað Guerdwich aftur í menntaskóla: Ungar stúlkur.

Og svo fór að það voru ekki lygarnar um aldurinn og nafnið sem yfirvöld litu hvað alvarlegustu augum.

Í ljós kom að hann hafði haft kynmök við 15 ára stúlku í skólanum, en sú stóð í þeirri trú að Montimere væri ári eldri en hún, 16 ára gamall.

Samkvæmt refsilöggjöf Texas um kynferðisbrot beið Guerdwich allt að 20 ára dómur.

En hann slapp ótrúlega vel og fékk Guerdwich Montimere aðeins þriggja ára dóm og var sleppt árið 2013.

Þjálfarinn Danny stendur enn með ,,Jerry! Margir stuðningsmenn

Dómurinn fór misjafnlega í íbúa Lubbock, en i borginni búa rúmlega 260 þúsund manns.

Saksóknari fullyrti að réttlætinu hefði verið fullnægt. Sumir töldu að hann hefði átt mun lengri dóm skilið en merkilega margir stóðu með Montimere, hávaxna ,,táningnum” sem margir neituðu að kalla annað en ,,Jerry.”

Einn kennara hans í Permian skólan, Liz Faught, sagði í viðtali að ,,Jerry” væri enginn glæpamaður, hann hefði einungis verið að reyna að bæta líf sitt. ,,Ég hef ekki eitt illt orð að segja um þennan strák.”

Körfuboltaþjálfarinn Danny Wright, sem bauð Guerdwich að búa hjá sér, stóð sem klettur við hlið hans og neitaði einnig alfarið að kalla hann annað en Jerry. ,,Ég trúi þvi af öllu hjarta að sjálfur telji hann sig vera Jerry Joseph.” Kona hans lítur enn á ,,Jerry” sem son sinn og segist munu gera til dauðadags. Hún rifjar upp hvernig hann grét eins og ungabarn þegar hann fékk jólagjafir og bökuð var kaka fyrir hann á afmælisdaginn.

,,Þennan dreng vantaði Guerdwich nema ást,” fullyrti hún í viðtölum.

Fyrrverandi þjálfari Montimere sagði hann ekki heilan á geði og ætti heima á viðeigandi stofnun, ekki í fangelsi. Og náinn æskuvinur sagði eitthvað farið mikið úrskeiðis andlega hjá Guerdwich með árunum.

Annar fyrrum kennari sagði að að árin sem hann spilaði körfubolta í menntaskóla hafi verið hans hamingjuríkustu. ,,Hann var að leita í það sem hann elskaði mest, að vera hetjan á vellinum, körfuboltastjarnan.”

Tvíburabróðirinn

Guerdwich átti tvíburabróður, Guerdouin , og hefði engum dottið dottið í hug skyldleiki þeirra í milli. Ólíkt bróður sínum var Guerdouin lágvaxinn og félagslyndur og trúði Guerdwich því, og sennilegast með réttu, að bróðir hans væri uppáhald móður þeirra. Hann stóð sig vel í námi, var kurteis og snyrtilegur og var afbragðs góður í íþróttum en móðir hans mun aldrei hafa hrósað honum né fór hún á einn einasta íþróttaviðburð þar sem hann keppti.

Móðir hans sagði síðar í viðtali að báðir synir hennar hefur fiktað með eiturlyf sem hefði ekki breytt hegðun Guerdouin, aðeins hinum hávaxna tvíburabróður hans. Hefði Guerdwich byrjað að heyra raddir og var hún viss um að hann ætti við geðræn vandamál að stríða. Hvort kom á undan, geðrænu vandamálin eða eiturlyfin, vissi hún ekki en hann hefði meðal annars brotið húsgögn á heimilinu og reynt að ráðast á bróður sinn. Hegðun sem var í engri líkingu við þann dreng sem fólk átti að venjast, að sögn móður hans.

Hinn fullkomni nemandi

En kennarar og bekkjarfélagar úr menntaskólanum í Flórída höfðu aðra sögu að segja.

Sögðu kennararGuerdwich hafa lýst upp kennslustofur með nærveru sinni. Hann hefði verið einstaklega kurteis og prúður, aldrei svo mikið sem heyrst bölva og með fullkomna sjálfsstjórn. Bekkjarfélagarnir sögðu hann fyndinn og skemmtilega og þjálfari hans sagði Guerdwich fullkomlega treystandi.

En Guerdwich átti sér aðrar, og dekkri, hliðar. Sérstaklega á leikjum þar sem hann öskraði á leikmenn og hótaði dómurum.

Það brenna enn ótal margar spurningar á fólki varðandi Guerdwich Montimere.

Hver var Guerdwich?

Átti hann við geðraskanir að etja, jafnvel frá barnsaldri? Af hverju gerði móðir þeirra tvíbura þetta mikið upp á milli þeirra og hvaða áhrif hafði það á hann að móði hans hringdi aðeins í bróður hans til að óska honum til hamingju með afmælið, en aldrei hann?

Var hann í leit að þeirri ást og athygli sem hann fékk ekki á heimilinu? Af hverju treysti hann engum?

Var hann það fastur í draumi um framtíð í körfubolta að trúa í alvöru að hann kæmist upp lygina ? Eða var hann að leita að ungum stúlkum?

Það er að finna fjölda frásagna um hegðun hans á árunum áður en upp um hann komst, en enginn tengist óviðurkvæmilegri hegðun gagnvart stúlkum.

Það er ómögulegt að vita hvað varð um Guerdwich Montimere eftir að hann var látinn laus úr fangelsi.

Síðasta innlegg á Facebook síðu hans er að hann hafi útskrifast út Odessa Permian menntaskólanum árið 2014.

Sem er klárlega lygi.