4 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Joe Biden mun biðja Bandaríkjamenn að nota andlitsgrímur í 100 daga – Reiðubúinn til að láta bólusetja sig í beinni útsendingu

Skyldulesning

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, ræddi í gærkvöldi við Jake Tapper, fréttamann hjá CNN. Kamala Harris, verðandi varaforseti, var með honum í þættinum en þetta var í fyrsta sinn sem þau komu saman í viðtal eftir forsetakosningarnar.

Meðal þess sem Biden sagði í gærkvöldi var að hann ætli að biðja alla Bandaríkjamenn að nota andlitsgrímur í 100 daga eftir að hann tekur við embætti. „Bara 100 daga með andlitsgrímur, ekki að eilífu. Eitt hundrað daga. Ég held að við munum sjá mikla fækkun,“ sagði hann og átti þar við fækkun smita.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur svo sannarlega sett mark sitt á undirbúning Biden og samstarfsfólks hans fyrir embættistökuna og sagði Biden að faraldurinn verði áfram fyrirferðarmikill næsta árið. Hann sagðist hafa beðið Anthony Fauci, sem er í kórónuveiruaðgerðahópi Donald Trump, fráfarandi forseta, um að vera aðalráðgjafa sinn í heilbrigðismálum og hluta af kórónuveiruaðgerðahópi sínum. „Ég bað hann um að halda áfram í sama hlutverki og hann hefur haft hjá nokkrum síðustu forsetum og ég bað hann um að vera aðalráðgjafa minn í heilbrigðismálum og hluta af COVID-19-teyminu.“

Hann sagði að þar sem völd hans ná yfir, eins og í alríkisbyggingum eða flutningatækjum innanlands eins og flugvélum og strætisvögnum, muni hann gefa út fyrirskipun um að öllum verði skylt að nota andlitsgrímur. Bandaríska smitsjúkdómastofnunin CDC segir að grímunotkun geti verndað fólk fyrir smiti.

Biden sagðist einnig vera reiðubúinn til að láta bólusetja sig gegn kórónuveirunni um leið og Fauci segi bóluefnið öruggt. Hann muni láta bólusetja sig opinberlega til að sýna trú sína og traust á bóluefninum. Harris tók í sama streng. Þau feta þar með í fótsport Bill Clinton, George W. Bush og Barack Obama, fyrrum forseta, sem hafa allir lýst því yfir að þeir muni láta bólusetja sig opinberlega til að sýna að bóluefnið sé virkt og öruggt.

Innlendar Fréttir