6 C
Grindavik
2. mars, 2021

Jóhann Berg stoltur af árangri sínum og segir líkamann orðin góðan

Skyldulesning

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er einn fárra Íslendinga sem hefur leikið 100 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Hann segir skrokkinn orðinn góðan eftir nokkuð erfiðan tíma vegna meiðsla undanfarið.

Hinn þrítugi Jóhann Berg ræddi við Bjarna Þór Viðarsson hjá Símanum Sport um ferilinn, framtíðina og árangurinn hingað til.

„Markmiðið var alltaf að spila í ensku úrvalsdeildinni. Að ná 100 leikj­um var kannski ekki alveg það sem maður var að hugsa um á þeim tíma,“ sagði þessi öflugi leikmaður í viðtalinu.

„Ég er gríðarlega stoltur af þessum árangri enda hefur það sýnt sig að það eru ekki margir sem ná slíkum árangri. Ég er búinn að vera í basli með smá meiðsli en þessi sigur gegn Crystal Palace um síðustu helgi var afar mikilvægur enda fyrsti sigur tímabilsins,“ sagði Jóhann Berg um gengið hingað til. Hann nefndi þó leikinn gegn Manchester City sem tapaðist 5-0 og sagði að allir hjá Burnley vissu að þeir þyrftu að gera betur.

„Líkaminn er í góðu lagi núna en þetta hefur verið smá svona stopp og start hjá mér. Það er að mörgu leyti erfiðara en þessi langtíma meiðsli því maður veit aldrei hversu langan tíma maður verður frá. Það er virkilega erfitt og hefur verið erfitt bæði líkamlega og andlega fyrir mig. Það er hins vegar ekkert annað að gera en að halda áfram. Ég æfi á hverjum degi og vonandi mun ég fá fleiri mínútur á næstu vikum og mánuðum, sagði Jóhann að lokum.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan. Þá er vert að minnast á það að Jóhann mætir Gylfa Þór Sigurðssyni í sannkölluðum Íslendingaslag í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Nú er bara að vona að þeir byrji báðir leikinn.

Innlendar Fréttir