Jóhanna fæddist fyrir tímann og var viðkvæmari en hin börnin – „Þegar áttundi bekkur var hálfnaður var ég alveg hætt að mæta í skólann vegna kvíða, hræðslu og hvað sem var reynt þá bara gat ég það ekki“ – DV

0
173

Jóhanna Októvía er 36 ára, einstæð móðir úr Ólafsvík sem kippt var út af vinnumarkaði um tvítugt. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.

Jóhanna fæddist átta vikum vikum fyrir tímann og ólst upp í Ólafsvík til tólf ára aldurs. Hún var um fjórum árum eftir á í þroska sem barn, lesblind og lögð í einelti.

Viðkvæm og öðruvísi

„Ég var viðkvæm og öðruvísi, með litaðar glærur og gul gleraugu til að eiga auðveldara með að lesa.“

Jóhanna var orðin kvíðin og vanlíðanin mikil þegar fjölskyldan, hún ásamt foreldrum hennar og eldri bróður, fluttu í Hafnarfjörð.

Þegar unglingsárin komu með öllu sem þeim fylgja jókst vanlíðan og andlegu veikindi Jóhönnu urðu hamlandi í daglegu lífi.

„Þegar áttundi bekkur var hálfnaður var ég alveg hætt að mæta í skólann vegna kvíða, hræðslu og hvað sem var reynt þá bara gat ég það ekki“, segir Jóhanna og bætir við að hún hafi verið hjá sálfræðingi sem hótaði að taka sjónvarpið af henni ef hún mætti ekki í skólann, sem var aldrei gert.

Dugleg í vinnu en lögð í einelti

Fjölskyldan flutti aftur þegar Jóhanna var í 10. bekk, þá til Grindavíkur. Hún hugsaði með sér að nýta það sem nýtt upphaf í nýju umhverfi og þrátt fyrir að hafa ekki mætt í skóla síðan í áttunda bekk fékk hún að útskrifast með jafnöldrum úr grunnskóla.

„Ég fann mig ekki í framhaldsskóla og mátti hætta með því skilyrði að ég færi að vinna, sem ég gerði og þótti mjög gaman.“

Jóhanna fór að vinna í fiski í Grindavík og líkaði vinnan vel en einelti setti strik í reikninginn.

„Ég var rosalega lítil og nett á þessum tíma, ég var hengd upp á snaga og skilin eftir. Ég var sett inn í skáp og læst inni þar til fólk fór að velta fyrir sér hvar ég væri og fór að leita. Ég var mjög dugleg í vinnu og elskaði þessa vinnu en þetta kveikti aftur í andlegu veikindunum mínum.“

Jóhanna fór í meðferð hjá Hvíta bandinu, í HAM meðferð og fleiri úrræði sem áttu að verða til þess að styrkja hana. Um tvítugt var henni sagt að hætta að vinna.

Endað undir borði

Hún segir okkur frá tilraunum sínum til að fara aftur á vinnumarkað síðustu 16 árin og hvernig þær hafa endað, undir borði í kvíðakasti til dæmis.

33 ára gömul eignaðist Jóhanna barn þrátt fyrir að hafa 15 ára greinst með slæma endómetríosu og því ekki sjálfgefið að geta það. Hún ræðir hvernig kvíðinn við að ganga með, fæða og ala barn hafi haft áhrif á hana og hversu mikið það kom á óvart hversu mikil áhrif brjóstagjöfin hafi triggerað hana.

Í þrjú ár frá 2008-2011 lifði hún fyrir helgarnar, djammaði og flúði þannig sinn raunveruleika en í dag er dóttir hennar ljósið í lífinu sem heldur henni við efnið.

Það má hlusta á viðtalið við Jóhönnu Oktavíu í heild sinni í hlaðvarpinu Sterk saman.