7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Jóhanna Gísladóttir til Vísis um helgina

Skyldulesning

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf., segir ekkert liggja á að taka Jóhönnu Gísladóttur í notkun enda gengur veiðin vel á skipi sem útgerðin hefur á leigu.

Ljósmynd/Samtök atvinnulífsins

Um helgina bætist skip í flota Vísis hf. í Grindavík en þá fær fyrirtækið afhent Jóhönnu Gísladóttur GK-357 (áður Bergur VE), að sögn Péturs Hafteins Pálssonar, framkvæmdastjóra útgerðarinnar. „Við höfum verið að taka aðeins til í rekstrinum. Gera þetta ódýrara og jafna veiðina,“ segir hann.

Spurður hvenær skipið verður tekið í notkun svarar hann: „Á tveimur árum erum við búin að fækka um eitt skip, úr fimm í fjögur. Við lögðum skipi fyrir rúmu ári og tókum annað togskip á leigu til að undirbúa þetta. […] Það er einhvern tímann á næstu vikum sem skipið hefur veiðar, en það skip sem fer úr rekstri er í góðri veiði núna og ekkert sem rekur okkur áfram.“

Bergur í litum Vísis í Grindavík í slipp í Reykjavík. Skipið heitir nú Jóhanna Gísladóttir GK.

mbl.is/sisi

Dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn ehf., festi kaup á Bergi ehf. í október í fyrra og fylgdu kaupunum 0,36% af heildaraflamarki og togarinn Bergur VE. Vísir hefur keypt togarann og hefur hann verið málaður í grænum lit nýrra eigenda og hlotið nýtt nafn.

Togarinn var smíðaður hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998 og er hann 569 brúttótonn að stærð með 1.300 hestafla vél.

Vísir hefur lagt mikla áherslu á línuveiðar en skipið sem nú bætist í flotan hefur í för með sér tvíþætta breytingu í tilhögun veiða að sögn Péturs Hafsteins.

„Það er dýrara að veiða á línu og það eru ekki allir markaðir sem samþykkja þann verðmun. Þannig að við erum að bæta við skipi sem er fyrir þá kúnna sem samþykkja þá veiði. Síðan erum við að jafna svolítið sumarveiðina. Línan hefur verið svolítið brottgeng í veiðimagni yfir sumarið og við erum að bæta það upp.“

Áfram nægt framboð af línuþorski

Fyrirtækið verður nú með fjögur skip í aflamarkskerfinu og tvo línubáta í krókaaflamarkskerfinu. „Menn eru alltaf að leita að einhverju jafnvægi sem gengur fyrir heilsársvinnslu og veiði. Nú hefur orðið töluverður niðurskurður [í þorskkvóta] og þá erum við búnir að mæta því með því að aðlaga flotann að honum.“

Pétur Hafsteinn kveðst sannfærður um að hægt sé að uppfylla óskir kaupenda um veiðiaðferð. „Við erum viss um það að við getum látið þá kúnna sem vilja bara línufisk fá línufisk og þá sem vilja trollfisk fá trollfisk.“

Jóhanna Gísladóttir GK verður afhent Vísi um helgina.

Ljósmynd/Síldarvinnslan

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir