7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Jólalegt um að litast í miðborginni

Skyldulesning

Það er orðið jólalegt um að litast í miðborginni og ýmislegt er á dagskrá sem gæti gert aðventuna býsna einstaka. Fjölmargir viðburðir eru skipulagðir sem ólíklegt er að verði endurteknir enda eru aðstæður með sérstakasta móti. Tónlistatriði munu t.a.m. birtast óvænt á hinum ýmsu stöðum.  

Eitt og annað er á vegum borgarinnar en veitingafólk á svæðinu leggur einnig sitt af mörkum til að skapa góða stemningu í bænum. Á Prikinu verður Auður með tónleika í glugga kaffihússins á laugardaginn og vegfarendum verður einnig boðið upp á heitt kakó eða kaffi. Þetta er gert þrátt fyrir að staðurinn sé í raun lokaður. 

Það er Geoffrey Huntingdon-Williams sem heldur utan um reksturinn á Prikinu og hann segir fólk á svæðinu vera einhuga um að skapa skemmtilega stemningu í bænum. Enda skipi miðbæjarrölt á aðventunni sérstakan sess í huga margra. 

Jólatrjásala á Lækjartorgi

Á Lækjartorgi hefst sala á jólatrjám fimmtudaginn sautjánda desember og sem fyrr hefur verið sett upp mikið magn af jólaljósum í borginni, þau munu víst vera 200.000 talsins. Þeir sem hafa áhuga á jólaljósum og tölum muna kannski að Clark Griswold notaði 25.000 perur í jólamyndinni Christmas Vacation. En það er útúrdúr.

Tveir jólamarkaðir verða í miðbænum á aðventunni. Annar á Hjartatorgi og hinn við Nova-svellið sem er á sínum stað á Ingólfstorgi. Það er hip-hop mógúllinn Róbert Aron Magnússon sem stendur fyrir markaðnum á Hjartatorgi og hann segir stemninguna um síðustu helgi hafa verið afar góða. 

„Við erum bara að skapa svona alhliða jólastemningu hérna í miðbænum,“ segir Róbert en markaðurinn er opinn frá 13-18 allar helgar og svo lengur þegar nær dregur hátíðunum. 

Í myndskeiðinu er rætt við þá Róbert, Geoffrey og Björgu Jónsdóttur sem er verkefnastjóri Vetrarborgarinnar hjá Reykjavíkurborg.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir