2 C
Grindavik
27. nóvember, 2020

Jólatónleikum Baggalúts aflýst

Skyldulesning

„Góðir Íslendingar. Það er með tár á hvarmi og kökk í hálsi sem Baggalútur tilkynnir að fyrirhuguðum jólatónleikum í Háskólabíói í desember 2020 hefur verið aflýst,“ segir í tilkynningu sem Baggalútur sendi frá sér rétt í þessu.

Jólatónleikar Baggalúts hafa verið fastur hluti af jólunum hjá mörgum síðustu ár og hélt sveitin til að mynda átján tónleika fyrir síðustu jól.

Þá kemur fram í tilkynningunni að allir miðar verði endurgreiddir án tafar. „Við þökkum þeim þúsundum tónelskandi jólaunnenda sem keyptu miða í ár og þeim mörgu tugum þúsunda sem hafa sótt jólatónleika Baggalúts undanfarin ár. Við munum sakna ykkar,“ segir einnig í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur:

En. Bíðið við. Hægan. Baggalútur tilkynnir jafnframt, í samstarfi við RÚV, Kósíheit í Hveradölum. Þriggja þátta tónlistarveislu á aðventunni þar sem töfraður verður fram ilmandi og unaðsgefandi jólafílíngur á sjónvarpsskjám landsmanna. Þau veisluhöld hefjast laugardagskvöldið 5. desember og innihalda blöndu af sígildum jólalögum, bestu lögum Baggalúts og brakandi fersku nýmeti fyrir augu og eyru að kjamsa á með fjölmörgum góðum gestum.

Það koma samt jól

Baggalútur minnir jafnramt á vonarglæðandi hátíðarpoppslagarann „Það koma samt jól“ sem hægt er að heyra víða um net. Rétt er líka að minna á jólaspil Baggalúts, Gott í skóinn, sem er fáanlegt á plotubudin.is .

Góðir Íslendingar. Upp með sprittið. Upp með grímurnar. Upp með jólaandann. Niður með pestina. Sjáumst á RÚV. Og grímulaus með hringlaga sólskinsbros í troðfullu Háskólabíói í desember 2021. Það koma samt jól.

Innlendar Fréttir