2 C
Grindavik
27. nóvember, 2020

„Kaldar kveðjur“ til kennara í Reykjavík

Skyldulesning

Þorgerður segist hafa fengið þau svör frá borginni að auka …

Þorgerður segist hafa fengið þau svör frá borginni að auka launakeyrsla hafi þótt of dýr.

Ómar Óskarsson

Reykvískir kennarar hafa ekki fengið umsamdar launahækkanir sem áttu að koma til greiðslu 1. nóvember. Að sögn Þorgerður Laufeyjar Diðriksdóttur formanns félags grunnskólakennara hafa launahækkunin gengið snurðulaust fyrir sig í öðrum sveitafélögum að því er hún viti best til.

Um er að ræða almenna 41 þúsund króna hækkun á grunnlaunum frá 1. september og var samningurinn gerður 7. október en samþykktur 23.október. 

Samningurinn hafi verið undirritaður of seint 

„Öll sveitafélög hafa greitt þetta út svo ég viti til. Reykjavíkurborg ber það fyrir sig að samningurinn hafi verið samþykktur of seint sem geri það að verkum að ekki hafi verið hægt að keyra hann í gegnum launakerfi borgarinnar þannig að greiðslan gæti komið inn 1. nóvember,“ segir Þorgerður. 

Þorgerður Diðriksdóttir er formaður Félags grunnskólakennara.

Þorgerður Diðriksdóttir er formaður Félags grunnskólakennara.

Hún telur slíkan fyrirslátt hæpinn þar sem launagreiðanda hafi mátt vera ljóst að það gæti komið til hækkunarinnar þar sem samningurinn var samþykktur 7. október. 

„Launagreiðendur sem náðu ekki að gera þetta 1. nóvember hafa keyrt auka launakeyrslu annað hvort viku eftir útborgunardag eða hálfum mánuði síðar. Allir sem ég veit um hafa því gert upp umsamdar greiðslur við grunnskólakennara nema Reykjavíkurborg,“ segir Þorgerður.

Kennurum hefði mátt vera þetta ljóst 

Hún segist hafa fengið þau svör frá Hörpu Ólafsdóttur skrifstofustjóra kjaramála Reykjavíkurborgar að framkvæmd auka launakeyrslu þyki of erfið í framkvæmd.

 „Kennarar hafa verið mjög ósáttir því þeir líta svo á að þarna sé verið að gera upp samningsleysi og hækkanir sem ná til 1. september. Þeir hafa því fengið lægri laun sem þessu nemur frá þessum tíma. Það er búið að sýna fram á það að álagið á kennara er langt umfram það sem samið var um á þessum Covid-tímum. Þess vegna finnst þeim þetta kaldar kveðjur frá Reykjavíkurborg,“ segir Þorgerður.  

Hún segir að í svörum frá borginni hafi verið látið í veðri vaka að kennurum hafi mátt vera ljóst við undirskrift að þetta gæti gerst. „Það var hvergi getið til um það að launakerfi einhvers einstaks sveitafélags gæti ekki ráðið við það að keyra út rétt laun. Sérstaklega þar sem fyrirvarinn var frá 7. október. Það er því ekki rétt að hægt sé að bera því við,“ segir Þorgerður. 

Innlendar Fréttir