Kanadamaður í sjokki yfir verðlaginu á Íslandi – DV

0
7

Eins og Íslendingar vita líklega manna best er verðlag á matvöru hér á landi býsna hátt og myndu sumir segja að það væri út úr öllu korti. Myndband sem Kanadamaður sem staddur er hér á landi birti á Tiktok (@samieldaniel) hefur vakið talsverða athygli en í myndbandinu fer hann í verslunarleiðangur í Bónus og furðar sig á háu vöruverði.

Tekur hann dæmi af eins kílóa heimilisbrauði sem kostar 409 krónur en í Kanada kosti sambærileg vara tvo kanadíska dollara, eða rétt rúmlega 200 krónur.

Einn kanadískur dollari jafngildir um 102 íslenskum krónum.

Hann heldur svo áfram leiðangri sínum um búðina og bendir til dæmis á verðið á kjúklingabringum, hrísgrjónum, sælgæti og Coca Cola.

Myndband Daniels er meðal annars búið að rata inn í Facebook-hópinn Vertu á verði – eftirlit með verðlagi þar sem það hefur vakið umtal. „Skil hann vel, verðlagið hér er hryllingur,“ segir ein í hópnum.

Myndbandið má sjá hér að neðan:

@samieldaniel Groceries are so expensive in Iceland! Just wanted to show you how it is compared to Canada! #fyp #foryou #iceland #groceryshopping ♬ Alex G – ⭐️