Kanadískur fjárfestingasjóður kaupir Pornhub – DV

0
189

Kanadíski fjárfestingarsjóðurinn Ethical Capital Partners (ECP) keypti í síðustu viku fyrirtækið Mindgeek sem er eigandi Pornhub, sem er stærsta klámsíða heims. ECP lýsir sem öðruvísi fjárfestingarsjóði sem láti „lögfræðilegar flækjur“ ekki halda aftur af sér.

Eins og nafnið gefur til kynna þá tengir sjóðurinn sig við siðferði og eflaust finnst sumum þá skrýtið að hann sé að kaupa stærstu klámsíðu heims.

Pornhub hefur sætt fjölda málshöfðana á síðustu árum vegna efnis á síðunni. Margir stórir samstarfsaðilar síðunnar hafa slitið samstarfinu við síðuna tímabundið vegna þessara mála.

Meðal þeirra mála, sem hafa valdið síðunni vandræðum, er mál 14 ára stúlku, sem var hópnauðgað. Myndband af ofbeldinu var birt á Pornhub. BBC segir að stúlkan hafi ítrekað haft samband við Pornhub og beðið um að myndbandið yrði fjarlægt. Það fékk hún ekki í gegn fyrr en hún þóttist vera lögmaður.

Efni frá klámframleiðandanum GirlsDoPorn var á Pornhub lengi eftir eftir að framleiðandinn var handtekinn og ákærður fyrir mansal. Auk þess höfðuðu konur, sem sögðust hafa verið blekktar, mál á hendur honum.

Undirskriftarsöfnun var hrundið af stað á netinu árið 2020 þar sem þess var krafist að síðunni yrði lokað. Ein milljón manna skrifaði undir kröfuna. Forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar sögðu að ótrúlega auðvelt væri að finna barnaklám og myndbönd af hreinum nauðgunum á síðunni. Á þessum tíma gátu allir notendur síðunnar sett myndbönd inn á hana.

Í kjölfar undirskriftarsöfnunarinnar lokuðu greiðslukortafyrirtækin Visa og Mastercard á notkun korta sinna á síðunni.

The Guardian segir að á síðasta ári hafi Pornhub loksins tekið sig saman í andlitinu og og fjarlægt öll myndbönd af síðunni, sem höfðu ekki verið sett inn af aðilum sem höfðu fengið aðgang sinn staðfestan. Fækkaði myndböndum á síðunni þá úr 13 milljónum í 4 milljónir.