Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, útilokar ekki að enski landsliðsmaðurinn Harry Kane geti leikið með gegn Arsenal þótt hann missi af leiknum í Evrópudeildinni annað kvöld.
Grannaslagurinn í norðurhluta London er á dagskrá á sunnudaginn og Kane glímir við meiðsli af einhverju tagi sem Mourinho vildi ekki útlista nánar við enska fjölmiðla.
Mourinho fullyrti að Kane verði ekki teflt fram í Evrópudeildinni annað kvöld en segist reikna með því að Kane verði með á móti Arsenal. Sagði það þó vera byggt á tilfinningu.
Tottenham mætir LASK Linz í Evrópudeildinni annað kvöld og á liðið góða möguleika á að komast áfram.