-2 C
Grindavik
20. janúar, 2021

Karen Kjartans – Allt sem er gult, gult finnst mér vera fallegt

Skyldulesning

Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og útivistarmaður, deilir hér með okkur sínum uppáhalds 5 uppáhalds gulu fyrirbrigðunum sínum.

Aðsend mynd

1. Sósan

Er bernaise sósa. Ég bý hana til sjálf og mögulega full oft, svona miðað við að innihaldsefnin eru nær aðeins eggjarauður og smjör. Ég held samt að matargerð hafi sjaldan náð jafn nálægt fullkomnun og hún gerði með þessari gulu sósu sem gerir allt svo gott.

Aðsend mynd

2. Hlaupavestið 


Það heitir víst fullu nafni Salomon skin pro 15 og var keypt í fyrra fyrir þriggja landa hlaupaferð í Ölpunum. Þetta er hálfgerður galdragripur sem getur tekið við miklu magni af alls kyns farangri en orðið að ekki neinu þegar hentar. Situr vel á manni svo í raun finnum maður aldrei fyrir því eða því sem í það fer. Sítrónuguli liturinn heillar mig svo alltaf sérlega enda hef ég þá trú að bjartir litir, sérstaklega gulur og grænn, bæti skapið.

Aðsend mynd

3. Hlaupajakkinn

Ég sá þetta hlaupasett í Fjallakofanum og langaði samstundis í það. Ég reyndi samt að stilla mig og hugsað með mér að enn og aftur væri guli liturinn að toga óhóflega í mig. Hélt að ég hefði náð að komast undan dáleiðandi áhrifum hans en hugsaði um hann í nokkra daga á eftir þar til ég gafst upp. Það er í sænsku fánalitunum og er nefnt eftir skíðakempunni norsku Birni Dæhlie og mér finnst það fara mér, Íslendingnum með danska nafnið, ægilega vel. Ég hef svo átt tvo gula jakka úr 66°norður sem mér þykir einkar vænt um en nefni þetta því það er nýjast í uppáhaldi.

Aðsend mynd

4. Skálinn minn

Ég hef nú aðeins komið einu sinni í hann enda er hann upp á Grímsfjalli inn á miðjum Vatnajökli en þvílíkur skáli. Tilfinningin fyrir þeim þægingum sem maðurinn hefur komið sér upp er líka sjaldan sterkari en þarna. Þegar við vinkonurnar mættum þangað á skíðum í vor höfðum við dvalið í tjaldi í nokkrar nætur og mikið af dótinu orðið blautt. Vistin þarna inni var því líkast til á borð við það sem forfeður okkar sáu fyrir sér himnaríki, hlýtt og þurrt auk þess sem almættið breiddi út faðminn heilan dag og bauð okkur upp á einhvern fegursta dag sem ég hef lifað. Skíðahetjan vinkona mín Hólmfríður Vala náði þessari mynd af okkur vinkonum á góðri stundu. Það sem málað er á þessum stað er gult sem ég kann vel að meta.

Aðsend mynd

5. Barinn 

Er auðvitað guli barinn Hannes boy á Siglufirði. Ekki aðeins er húsið sérlega skemmtilega gert upp á fallegum og sögufrægum stað heldur er það einnig kennt við mann sem bar sama nafn og eiginmaður minn.

Aðsend mynd

6. Gæludýrið

Það er Gutti, guli kötturinn minn. Við fjölskyldan deilum húsi með tveimur köttum. Það er gæða læðan Dimma, sem börnin í götunni kalla jafnan góðu kisuna til aðgreiningar frá öðrum köttum, og svo honum Gutta, eða Guðbjarti eins og Hannes eiginmaður minn nefndi hann. Gutti er mikill húsbóndaköttur og vill helst bara vera hjá mér eða manninum mínum. Börnunum sinnir hann helst bara ef þau eiga að gera eitthvað fyrir hann og mjálmar hann þá reiðilega að þeim.

Innlendar Fréttir