10.2 C
Grindavik
24. júní, 2021

Kári segist aldrei hafa litið á Jón Ívar sem minni mann – Eitt sem var „fyrir neðan allar hellur“

Skyldulesning

Síðustu mánuði hafa Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, eldað grátt silfur saman. Þeir hafa verulega ólíka sýn og skoðanir á sóttvarnarmálum og hafa verið duglegir að tjá sig um þær undanfarið misseri. Í gærmorgun sagði Jón Ívar að hann myndi eiga erfitt með að fá vinnu á Íslandi, en í morgun birtist opið bréf frá Kára til Jóns á Facebook-síðu þess fyrrnefnda. Bréfið er alls ekki eins harðorðað og margt af því sem hefur verið sent þeirra á milli, heldur mætti kannski lýta á það sem einskonar afsökunarbeiðni, eða sáttaboð.

Sjá einnig: Jón Ívar kvartar undan árásum Kára – Sagt að hann muni eiga erfitt með að fá vinnu á Íslandi

Bréfið ber nafnið „Fótaskortur“, en Kári byrjar í því að segja að líklega hafi þeir báðir farið út fyrir meðalhófið í skoðanaskiptum sínum. Hann segist ekki líta svo á að Jón sé minni maður fyrir að vera með ólíkar skoðanir en hann sjálfur. Vissulega skýtur Kári því inn að honum finnist sín leið hafa réttlætt sig betur en Jóns, en það skipti hreinlega ekki máli.

„Jón Ívar, hún er vandrötuð þrönga gatan meðalhófsins og kannski höfum við báðir ráfað út af henni í skoðanaskiptum okkar um sóttvarnir. Eitt er þó víst að ég hef aldrei litið svo á að þú sért maður minni fyrir þá staðreynd að þú tjáðir skoðun á sóttvörnum á landamærum Íslands sem voru allt aðrar en mínar. Eins og stendur lítur út fyrir að ég hafi haft rétt fyrir mér vegna þess að faraldurinn hefur blossað upp í löndunum í kringum okkur og er að hjaðna hérlendis en það skiptir bara ekki máli í þessu samhengi.“

„Fyrir neðan allar hellur“

Kári segir eitt hafa farið fyrir brjóstið á sér, en það hafi verið þegar Jón Ívar kærði sérnámslækninn Jón Magnús Jóhannesson fyrir að andmæla sér. Kári segir það hafa verið fyrir neðan allar hellur, en viðurkennir að sjálfur hafi hann gert verri hluti en það.

„Það sem fór fyrir brjóstið á mér er að þú veittist að unglækni sem andmælti málflutningi þínum og kærðir hann fyrir siðanefnd Læknafélags Íslands. Það var ekki drengilegt og hreinlega fyrir neðan allar hellur en það gerist ýmislegt í hita leiksins. Ef ég hefði aldrei gert neitt verra en þetta Jón væri slóð mín fegurri en raun ber vitni.“

„Duglegur, flinkur og góður læknir“

Að lokum segir Kári að þegar hann hafi bent á hagsmuni Jóns Ívars af því að halda landamærunum opnum, hafi hann hreinlega haldið að hann væri einnig að benda á mannkosti Jóns, sem kemur reglulega til landsins að hitta börnin sín. Kári segir sannleikann vera að fáir einstæðir feður gefi sér sama tíma og Jón í að rækta samband sitt við börn sín. Þá heldur Kári því fram að Jón Ívar sé góður og flinkur læknir, og að Íslendingar ættu að taka honum opnum örmum kæmi hann aftur á klakann.

„Þegar ég benti á að þú ættir hagsmuna að gæta á landamærunum af því þú kæmir einu sinni í mánuði til landsins til þess að sinna börnum þínum hélt ég að ég væri einfaldlega að benda á mannkosti þína. Það er nefnilega  sjaldgæft að einstæðir feður leggi þetta mikið á sig til þess að rækta samband við börnin sín. Í mínum huga ertu með þessu að sanna fyrir umheiminum, svo ekki verður um villst, að þú sért góður maður. Ég vona að við Íslendingar séum svo heppnir að þú ákveðir að flytjast heim aftur og stunda hér þá læknisfræði sem hefur komið þér til metorða í Boston. Það er ekki vafi í mínum huga að þú sért duglegur, flinkur og góður læknir. Slíkum manni hljótum við eyjaskeggjar að taka opnum örmum.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir