2.3 C
Grindavik
27. nóvember, 2021

Kári svarar Þórólfi fullum hálsi -„Það er einfaldlega rangt að ég hafi nokkrun tímann veist að þér“

Skyldulesning

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur birt opið bréf til Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis.

Kára og Þórólfi hefur greint á um hvort rétt hafi verið af þríeykinu að boða væntanlegar tilslakanir fyrir fram. Kári telur að með því hafi skapast of mikill slaki meðal almennings á meðan Þórólfur segir að mikilvægt sé að koma hreinskilið fram og fannst ásakanir Kára heldur ómaklegar og að með þeim sé Kári að vega að  honum.

Kári segir það ekki rétt.

„Það er einfaldlega rangt að ég hafi nokkurn tímann veist að þér. Ég hef hrósað þér í hástert í hvert sinn sem ég hef fengið tækifæri til, vegna þess að mér finnst þu hafir staðið þig með afbrigðum vel í baráttunni og ég er montinn af því að hafa fengið að vera í þínu liði.“

Kári segir að hann hafi hins vegar alltaf dregið í efa hugmyndina um hinn óskeikula mann.

„Vegna þess hve hún mátast illa við alla þá sem ég hef rekist á um ævina, þig meðtalinn. Þess vegna hef ég nokkrum sinnum tjáð skoðanir sem hafa stangast á við orð þín og afstöðu. Það gerði ég til dæmis að morgni 19. september daginn eftir að greindust 75 tilfelli eftir öldrunarhúsahópsmitið. Ég sagði við blaðamann að það kæmi ekki annað til greina en að skella öllu í lás og þú gafst í skyn á upplýsingafundi sama dag að ég vissi litið hvað ég væri að tala um og kaust að sitja á höndum þér í rúmar tvær vikur.“

Kári segir að kannski hafi Þórólfur haft rétt fyrir sér með orðum hans um Kára, en kannski ekki varðandi afstöðu hans til þess sem var að gerast í faraldrinum.

„Þetta segi ég vegna þess að í kjölfarið á þessu reið yfir bylgjan sú hin þriðja. En hver veit? Ég hreyfði líka andmælum þegar þú og Víðir sögðuð fyrir tveimur vikum að það stæði til að aflétta einhverju af takmörkunum að viku liðinni. Í fyrsta lagi fannst mér það óskynsamlegt vegna þess hvernig pestin hefur haft tilhneigingu til þess að blossa upp fljótlega eftir að slakað er á. Í öðru lagi er hætta á því að þegar gefin er í skyn slökun að viku liðinni þá taki menn hana út fyrir fram.“

Kári segir að Þórólfur og hans fólk hafi tekist á við faraldurinn af fagmennsku og dugnaði og líklega séu engir betri til í heiminum í það verk. Hins vegar hafi þeim orðið á í messunni hvað varðar væntingastjórnun.

„Þórólfur, þú og þitt fólk hafið höndlað faraldurinn af mikilli fagmennsku og dugnaði og ég er vissum að það er ekki til betra fólk í heiminum í þetta verk. Ykkur hefur samt orðið svolítið á í messunni þegar kemur að því að hemja væntingar. Þið hafið á köflum kiknað undan lönguninni til þess að flytja góðar fréttir; gleymt því að það eina sem er verra en vondar fréttir eru góðar fréttir sem standast ekki og leiða menn út í mýri. Þessi faraldur er og verður „vondar fréttir“ og þegar maður er sóttvarnarlæknir er það hlutverk manns að tjá sig í samræmi við það, en ekki í samræmi við það sem maður heldur að fólk vilji heyra.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir