Karl krýndur konungur Karl þriðji var í dag krýndur konungur Bretlands. Krýningarathöfnin hófst formlega klukkan tíu í morgun en á þriðja þúsund manns var boðið til athafnarinnar. Nokkrir mótmælendur voru handteknir.
Þá hafði Karli konungi og Kamillu drottningu verið ekið að Westminster Abbey í konunglegum hestvagni. Nákvæmlega klukkutíma síðar færði erkibiskupinn af Kantaraborg krýningarkórónuna, ómetanlegan dýrgrip frá 1661, á höfuð Karls og krýndi hann konung. Aldrei hefur liðið jafnlangur tími á milli krýninga þjóðhöfðinga landsins – síðast var það móðir Karls, Elísabet önnur, sem krýnd var drottning árið 1953.
Mikill fjöldi fólks streymdi á götur Lundúnar til að fylgjast með og fagna krýningunni í dag. Þó voru ekki öll sem mættu að hylla konunginn. Samkvæmt AP voru hundruð lýðræðissinna sem mótmæltu krýningunni og kölluðu til að mynda: „Ekki minn konungur.“ Nokkur þeirra hafi verið handtekin.
Það var þó ekki bara mikið af fólki á götunum í dag. Fjöldi fólks hefur beðið undanfarna daga fyrir utan Buckingham höll og á götum borgarinnar til að freista þess að sjá konunginn. Íslensk kona er á meðal þeirra sem hittu á konunginn og færði hún honum kveðju.
Eins og við var að búast mætti Harry Bretaprins, sonur Karls, einsamall í krýningarathöfnina. Meghan Markle, eiginkona hans, afþakkaði boð í veisluna. Harry sat ekki á fremsta bekk með bróður sínum í athöfninni heldur þurfti hann að sætta sig við að sitja tveimur röðum aftar.