0 C
Grindavik
25. nóvember, 2020

Karl segir ríkisstjórnina vega að leigubílstjórum – „Leyfislausir skutlarar og aðrir lögbrjótar“

Skyldulesning

Karl Gauti Hjatlason, þingmaður Miðflokksins, hefur áhyggjur af nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar um leigubílaakstur. Samkvæmt því munu þeir sem hyggjast stunda leigubílaakstur ekki þurfa að skrá sig á leigubílastöð og fjöldi útgefinna leyfa verður ekki takmarkaður.

„Þetta frumvarp, sem leigubílstjórar telja að muni skerða mjög afkomu þeirra, er lagt fram þegar atvinnutekjur þeirra hafa dregist verulega saman vegna veirufaraldursins. Fjöldi bílstjóra er atvinnulaus og þeir sem enn reyna að gera út sínar bifreiðar hafa varla upp í rekstrarkostnað við bílinn,“ segir Karl í grein sem hann birti í Morgunblaðinu í dag.

Karl lýsir afleiðingum af sambærilegum lagabreytingum í Finnlandi. Segir hann öryggi bæði bílstjóra og farþega hafa minnkað:

„Fréttir um reynslu Finna af ofangreindri innleiðingu á samkeppni á leigubifreiðamarkaði gefa til kynna að hún virðist miður góð. Finnska dagblaðið Ilta-Sanomat ræddi við fjölmarga leigubifreiðarstjóra. Segja þeir frá slagsmálum bílstjóra um kúnna í Helsinki og segja þeir að glannalegir bílstjórar myndi „hálfgerð gengi“ og hafi yfirtekið markaðinn á ákveðnum


svæðum í borginni. Þeir segja að kjör þeirra hafi versnað mikið með tilkomu nýju laganna og margir þeirra forðist þau svæði þar sem árásargjarnir bílstjórar hafa sig mest í frammi.“

Karl segir jafnframt að verð á akstri hafi hækkað við þessar breytingar samkvæmt skoðanakönnunum upplifi farþegar sig óöruggari en áður, meðal annars farþegar með hreyfihömlun.

Um ástandið hér á landi segir Karl:

„Vinna leigubifreiðarstjóra hefur dregist það mikið saman að tekjurnar duga ekki fyrir rekstri bifreiðar, hvað þá launum. Eftirlit með brotum á núgildandi löggjöf hér á landi hefur reynst mjög


brotakennt. Leyfislausir skutlarar og aðrir lögbrjótar aka farþegum og sumir bjóða til sölu ólögleg fíkniefni. Þrátt fyrir kvartanir og augljós lögbrot hirða eftirlitsaðilar ekki um að fylgjast með brotum eða koma yfir þá lögum. Að klæða breytingarnar í þau föt að eftirlit muni verða betra er í besta falli fyrirsláttur í ljósi reynslunnar.“

Karl segir að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar séu háskalegar í því ástandi sem nú ríkir enda hafi kjör leigubílstjóra rýrnað mikið. Áhrif breytinganna séu háð fullkominni óvissu:

„Bifreiðarstjórar búa nú við mikinn samdrátt í sínum rekstri og berjast alla daga fyrir afkomu sinni. Í því ástandi eru fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar háskalegar. En hún sýnir einnig skort á ábyrgð í


ljósi þess að áhrif breytinganna eru háð fullkominni óvissu. Menn hafa reynslu Finna fyrir augunum en láta sem þeir sjái ekki neitt.“

Innlendar Fréttir