10.3 C
Grindavik
16. september, 2021

Katrín og Ragnar voru byrjuð að huga að því að skrifa saman bók þegar ­far­aldurinn skall á

Skyldulesning

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vera mikið jólabarn og að gert hafi verið grín að henni þegar hún var krakki fyrir að byrja snemma að hlakka til jólanna. Áhugi hennar og fyrri störf við bókmenntir geri hana ekki síður að miklu jólabarni en hún og Ragnar Jónasson rithöfundur voru byrjuð að huga að því að skrifa saman bók þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á.

Katrín var gestur í Bakaríinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún ræddi jólin og sínar helstu jólahefðir.

„Það er hvít jörð sem er alltaf svolítið hressandi í skammdeginu. Maður verður stundum dálítið leiður þegar það er rigning, rok og grámi, þannig að ég elska þetta,“ sagði Katrín.

Hún haldi fast í ýmsar jólahefðir á aðventunni. 

„Ég hef alltaf verið rosa jólabarn og byrjaði alltaf að hlakka til jólanna svona um miðjan nóvember þegar ég var krakki og alltaf gert grín að mér í raun og veru fyrir það hvað ég var alltaf orðin spennt snemma. Þannig að ég er það ennþá og ég til dæmis var í morgun að leita að aðventukransinum og svo eigum við útsaumað jóladagatal sem fer alltaf upp á vegg. Þannig að ég held nú dálítið í hefðir,“ sagði Katrín.

„Það er gert grín af mér líka fyrir það einmitt að eiga jólaskraut frá ömmu og afa og mömmu. Manninum mínum finnst þetta stundum svona eins og skranbúð þegar aðfangadagur kemur, þegar ég er búin að setja allt upp og einhvern veginn get ekki sleppt neinu. Þannig að við þurfum að mætast aðeins á miðri leið með það,“ bætti hún við.

Hún segir að bókaormurinn í henni hlakki líka alltaf til jólanna, hún sé þegar búin að lesa nokkrar af nýjustu glæpasögunum. Hún hafi til að mynda nýverið lokið við að klára að lesa nýjustu bók Yrsu Sigurðardóttur sem hafi verið svo spennandi að hún hafi ekki getað lagt hana frá sér, hún hafi varla getað sofnað af hræðslu eftir lesturinn.

Aðspurð hvort hún sé sjálf með eitthvað ritverk í smíðum segir Katrín svo ekki vera, að minnsta kosti ekki akkúrat núna.

„En Ragnar Jónasson vinur minn, hann er nú með bók líka fyrir jólin, en hann var að reyna að draga mig í það verkefni að skrifa með honum bók og ég sagði við hann að við ættum bara að gera þetta, og við vorum komin töluvert af stað í einhverju hugarflugi þegar heimsfaraldur skall á þannig það hefur náttúrlega ekkert gerst síðan. En þetta mun gerast, einhvern daginn. Það kemur bara þegar það kemur,“ sagði Katrín.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir