Katrín tekur ekki undir að allar eignir í Grindavík séu verðlausar – Langt í að Grindvíkingar komist heim – DV

0
59

Bæjarstjóri Grindavíkur býst við að þurfa að vera lengi að heiman. Forsætisráðherra segir það bratt að halda því fram að allar húseignir í Grindavík séu verðlausar og óseljanlegar.

Þetta er meðal þess sem kom fram í sjónvarpsþættinum Torgið á RÚV þar sem fjallað var um stöðuna í Grindavík og framtíð íbúanna.

Til svara voru meðal annars Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Fannar Jónasson, bæjarstjóri, og Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra. Spurningar komu að stórum hluta frá íbúum Grindavíkur.

Væri áfall að rýma aftur í vetur „Ég held að við verðum að búast við því að vera lengi að heiman,“ sagði Fannar aðspurður um hvenær hann byggist við því að Grindvíkingar gætu snúið aftur heim.

Tvær stórar ástæður væru fyrir því. Annars vegar að það sé enn þá hreyfing í jörðinni og nýjar sprungur að myndast. Hins vegar að innviðirnir, einkum lagnakerfið, þurfi að geta tekið við íbúunum. Hingað til virðist sem svo að kerfið hafi staðist atlöguna að mestu en það þarf að gera framkvæmdir og best sé að gera þær á vorin. Nú sé harðasti vetrarkaflinn að koma.

„Það væri mikið áfall að þurfa að rýma aftur um miðjan vetur,“ sagði Fannar og hvatti fólk til að sýna biðlund. Ekki væri forsvaranlegt að tala um að flytja aftur heim fyrir jól. Býst hann við að grindvísk börn klári skólaárið í nýjum skólum.

Enn þá landris og kvikuinnstreymi Víðir Reynisson tók í sama streng. Enginn gæti svarað því hvenær Grindvíkingar gætu flutt aftur heim. Enn þá sé landris í Svartsengi og enn þá sé kvikuinnstreymi í kvikuganginn, þó það sé reyndar norðar en áður.

„Þessi jarðfræðilegi atburður er alls ekki búinn,“ sagði Víðir. Hann sagði að fólk mætti búast við jarðskjálftum á næstu tveimur vikum vegna þeirrar þenslu sem enn þá er í gangi. Enn þá séu svæði í Grindavík sem séu mjög hættuleg.

Sjá einnig: Sjáðu skemmdirnar í Grindavík Víðir segir að bíða þurfi eftir því að landris hætti. „Þá getum við farið að telja einhverja daga þangað til hægt verður að flytja heim jarðfræðinnar vegna,“ sagði hann.

Þá er lagnakerfið stór spurning, einkum skólpkerfið, þar sem bærinn hefur sums staðar sigið á vel á annan metra. Skemmdir séu miklar í sigdalnum. „Mesta brotið og mestu sýnilegu ummerkin eru á jöðrunum. En við erum farin að fá tilkynningar um skemmdir á húsum inn í sigdalnum sjálfum,“ sagði Víðir.

Ekki allar eignir verðlausar Eðlilega brunnu húsnæðismálin heitast á Grindvíkingum. Hvernig og hvort tjónið yrði bætt og hvort fólk sæti uppi með ill eða óseljanleg hús.

Katrín sagði bratt að segja að allar eignir í Grindavík séu verðlausar. „Það er víða á Íslandi sem er náttúruvá,“ sagði hún. Það að Ísland væri jarðfræðilega virkt land gæfi okkur ýmis þægindi en einnig náttúruvá. Byggja þyrfti allar ákvarðanir á rannsóknum og gögnum til að taka bestu mögulegar ákvarðanir. Sumir væru með verulega skemmd hús en aðrir algjörlega óskemmd.

Brunabótamat hámark bóta Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, var einnig til svara. Sagði hún að áherslan núna væri að skoða mest skemmdu húsin. Ekki væri útilokað að önnur hús yrðu skoðuð þegar færi að róast. Ekki væri fráleitt fyrir fólk að óska eftir skoðun.

Hulda sagði fólk hafa rúman tímafrest til að tilkynna tjón, það er heilt ár. Þá eru tveir aðrir fyrningarfrestir í einstökum tilvikum, 4 ár og 10 ár.

Aðspurð sagði hún Náttúruhamfaratryggingu ekki hafa heimildir til þess að bæta tjón umfram skemmdir á eign. Bæturnar endurspegla kostnað við viðgerðir. Brunabótamat er verð eignarinnar og hámark bóta við altjón.