6.4 C
Grindavik
22. september, 2021

Kennarahjónin voru myrt á hrottalegan hátt – Síðan kom skelfilegur sannleikurinn í ljós

Skyldulesning

Half og Susanne Zantop, sem bjuggu í hinum friðsæla smábæ Etna í New Hampshire, höfðu boði vinum sínum í mat þann 27. janúar 2001. En fyrsti gesturinn, sem mætti, kom að skelfilegum morðvettvangi, hjónin höfðu verið myrt. Hjónin voru bæði prófessorar við Dartmouth háskólann, sem er í nokkurra kílómetra fjarlægð, og áttu enga óvini að því að best var vitað. Half var 62 ára og Susanne 55 ára.

Half kenndi jarðfræði og bjó yfir svo mikilli þekkingu að nemendur hans kölluðu hann „The Rock God“. Hjónin höfðu verið stungin til bana, bæði höfðu hlotið fjölmargar stungur. Morðin höfðu greinilega verið framin af svo mikilli heift að lögreglumenn töldu að miklar tilfinningar hlytu að hafa legið að baki.

Nýnasistar eða afbrýðissemi

Lögreglan vann því í upphafi að rannsókninni út frá þeirri kenningu að Half hefði átt hjákonu og að einhver hefði viljað myrða hann og Susaenne út af því. Einnig var rannsakað hvort hjónin hefðu eignast óvini í skólanum en svo var ekki að sjá. Þau voru vel liðin af samstarfsfólki og nemendum. Fljótlega var þó kenningin um að afbrýðissemi lægi að baki morðinu lögð á hilluna.

Alríkislögreglan FBI var fengin til aðstoðar. Maður hafði sést sniglast nærri heimili hjónanna fyrir morðin og dularfullur bíll, sem var ekki með skráningarnúmer frá Etna, hafði sést nærri heimilinu. Því var velt upp hvort fylgst hefði verið með hjónunum um hríð.

Heimili Zantop-hjónanna. Mynd:Getty

Kjaftasögur fóru á kreik og því var meðal annars velt upp hvort hugsast gæti að nýnasistar hefðu staðið á bak við morðin. Hjónin höfðu flutt til Bandaríkjanna frá Þýskalandi á áttunda áratugnum og voru yfirlýstir andstæðingar þess sem gerðist í Þýskalandi á valdatíma nasista.

Loks miðaði rannsókninni áfram

Þremur vikum eftir morðin komst lögreglan loks áleiðis við rannsókn þeirra. Tvö hnífaslíður fundust á vettvangi og þau leiddu lögregluna að lokum til James J. Parker, 16 ára, sem hafði keypt tvo hnífa í þessum slíðrum nokkrum mánuðum áður.

Hann sagðist hafa keypt hnífana fyrir vin sinn, Robert W. Tullock, 17 ára, og að þeir hefðu ætlað að nota þá til byggja sér kofa. Robert sagði sömu sögu þegar lögreglan ræddi við hann sama dag. Lögreglumenn töldu sögu þeirra trúlega. Þeir voru samhljóða, komu frá góðum heimilum og gekk vel í skóla. Þeir voru samstarfsfúsir og létu fingraför í té.

En daginn eftir breyttist allt. Þá uppgötvaði faðir James að hann var stunginn af. Hann fann skilaboð frá honum um að hann ætti ekki að hringja í lögregluna. Föðurinn fór að gruna að eitthvað misjafnt væri í gangi og lét lögregluna vita af hvarfi sonarins og skýrði frá ferðum hans daginn sem hjónin voru myrt. Nú voru komnir brestir í fjarvistarsönnun James.

Síðan kom niðurstaða rannsóknar á skófari sem fannst á morðvettvanginum. Það passaði við skó í eigu Robert. En ekki nóg með það, fingrafararannsókn leiddi í ljós að þeir höfðu báðir verið heima hjá Zantop-hjónunum. Handtökuskipun var gefin út á hendur Robert og húsleit var gerð heima hjá honum en hann virtist horfinn af yfirborði jarðar. Í húsinu fundust hnífarnir tveir sem voru notaðir til að myrða Zantop-hjónin. Nú vantaði bara að finna James og Robert.

Of gáfaðir

Síðan hafði flutningabílstjóri samband við lögregluna. Hann hafði tekið tvo pilta upp í og passaði lýsingin á þeim við lýsinguna á félögunum. Lögreglumaður, í dulargervi sem flutningabílstjóri, hafði upp á þeim í Indiana og bauð þeim far. Þeir bitu á agnið og voru handteknir.

James játaði fljótlega sinn þátt í morðunum og sagðist fús til að bera vitni gegn Robert gegn því að fá mildari dóm. Eftir því sem James sagði þá töldu þeir félagarnir sig of greinda til að búa í litlum bæ eins og Chelsea, þar sem þeir bjuggu, og töldu sér ætlað stærra hlutverk í lífinu. Þá dreymdi um að komast til Ástralíu til að búa þar. Til þess hafi þá vantað 10.000 dollara.

Robert Tulloch á leið í dómshúsið. Mynd:Getty

Þeir hafi ætlað að verða sér úti um peningana með því að ræna auðugt fólk. Þeir höfðu því eytt löngum tíma í að velja hús sem þeir gætu brotist inn í, stolið verðmætum og peningum og neydd íbúana til að gefa upp leyninúmer greiðslukorta sinna. Því næst ætluðu þeir að myrða íbúana. Þeir höfðu gert nokkrar tilraunir og eitt sinn höfðu þeir verið nærri því að geta hrint fyrirætlun sinni í framkvæmd en húsráðandanum fannst þeir grunsamlegir og náði að loka hurðinni á þá.

Daginn, sem þeir myrtu hjónin, fundu þeir hús sem þeim fannst álitlegt en þar var enginn heima. Því fóru þeir heim til Zantop-hjónanna undir því yfirskini að þeir væru að vinna að skólaverkefni. Hjónin voru þekkt fyrir hjálpsemi sína.

James Parker færður fyrir dómara. Mynd:Getty

James sagði að Half hafi virst tregur til að bjóða þeim inn því þau hafi verið búin að bjóða fólki í mat. En þegar þeir útskýrðu vanda sinn í sambandi við verkefnið hafi kennarinn komið upp í honum og hann boðið þeim inn. Hann fór með þá inn í stofu en Susanne var í eldhúsinu.

„Við hefðum ekki þurft að drepa Half Zantop. Hann virtist fínn náungi,“ sagði James fyrir dómi. En samt sem áður myrtu þeir hann.

James sagði að Robert hafi reiðst þegar Zantop kvartaði yfir að þeir virtust ekki vera sérstaklega vel undirbúnir til að leysa skólaverkefnið. Það hafi orðið til að Robert réðst á hann, þegar hann sneri baki í Robert, og stakk hann margoft. Þegar Susanne kom til að kanna hvað gengi á hlaut hún sömu örlög. James sagðist hafa skorið hana á háls eftir fyrirskipun Robert. Þeir tóku síðan veski þeirra og flúðu á brott með 340 dollara.

Dómurinn

James sýndi mikla iðrun fyrir dómi og baðst afsökunar á sínum þætti í morðunum. Hann var dæmdur í 25 ára fangelsi, með möguleika á reynslulausn eftir 16 ár.

Robert var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn. Hann sýndi engar tilfinningar þegar dómurinn var kveðinn upp og tjáði sig ekki um hann.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir