Keppast um að finna það sem gæti fært þeim milljónir – DV

0
119

Flestir þeir loftsteinar sem rata til jarðar lenda í hafinu en síðastliðinn laugardag lenti einn slíkur í skóglendi í Maine í Bandaríkjunum.

Nú hefur stofnun sem kallast The Maine Mineral & Gem Museum heitið hverjum þeim sem finnur steininn 25 þúsund Bandaríkjadölum, rúmum 3,3 milljónum króna, í verðlaun. CNN greinir frá því að steinninn sé um eitt kíló að þyngd og vill safnið fá hann til rannsóknar.

Darryll Pitt, yfirmaður safnsins, bendir á að mörg hundruð loftsteinar rati til jarðar á ári hverju en af þeim finnast aðeins um tíu að jafnaði. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem safnið býður samskonar verðlaun en árið 2016 bar leit að loftsteini sem lenti í ríkinu engan árangur.

Darryll er þó vongóður um að annað verði uppi á teningnum núna enda gátu ratsjár NASA numið ferðalag hans í tæpar fimm mínútur áður en hann skall til jarðar. Með reiknikúnstum var svo hægt að finna út, með nokkrum skekkjumörkum, hvar hann lenti og því er verkefnið ekki eins ómögulegt og það kann að hljóma.

Líklegt þykir að margir muni hugsa sér gott til glóðarinnar og reyna að finna steininn enda til býsna mikils vinna.