0 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Kjartan er látinn – Merkur ferill

Skyldulesning

Kjartan Jóhannson, fyrrverandi ráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra, er látinn. Hann lést á heimili sínu síðastliðinn föstudag. Morgunblaðið greinir frá.

Kjartan fæddist í Reykjavík árið 1939 en ólst upp í Hafnarfirði. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1959, verkfræðiprófi lauk hann í Stokkhólmi árið 1963 og doktorsprófi í verkfræði frá háskóla í Chicago árið 1969.

Kjartan gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn. Hann var varaformaður flokksins 1974-1980 og formaður flokksins 1980-1984.

Kjartan var alþingismaður 1978-1989, sjávarútvegsráðherra 1978-9 og viðskiptaráðherra í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins frá hausti 1979 til 1980.

Kjartan var skipaður sendiherra árið 1989 og tók við starfi fastafulltrúa Íslands gagnvart SÞ og öðrum alþjóðastofnunum í Genf sama ár.

Þá gegndi hann stöðu aðalframkvæmdastjóra EFTA frá 1994 til 2000.

Eftirlifandi eiginkona Kjartans er Irma Karlsdóttir bankafulltrúi fædd 1943. Dóttir þeirra er María Kjartansdóttir hagfræðingur, búsett í Bandaríkjunum.

Innlendar Fréttir