Klæddi sig vel á hverjum degi en liðsfélaganum var alveg sama – ,,Örugglega margir sem hlógu að mér“ – DV

0
114

Dimitar Berbatov, fyrrum leikmaður Manchester United, gerði ávallt sitt besta til að líta vel út og jafnvel þó hann væri bara að fara á æfingu hjá félaginu.

Berbatov segir sjálfur frá þessu en hann klæddi sig alltaf vel á meðan aðrir leikmenn liðsins, eins og Wayne Rooney, pældu lítið í útlitinu.

Berbatov tók sinn tíma í að gera sig til á morgnanna fyrir æfingar en Rooney var alls ekki eins og mætti yfirleitt í sandölum á æfingasvæðið.

Búlgarinn var alltaf ákveðinn í að koma vel fram en Rooney sýndi því lítinn áhuga og má setja spurningamerki við hans fataval á þessum tíma.

,,Þegar ég mætti til æfinga þá sá ég alltaf til þess að ég væri vel klæddur, eins og ég væri á leiðinni á skólaball,“ sagði Berbatov.

,,Ég var jafnvel í gallabuxum, í flottri skyrtu og flottum skóm. Það voru örugglega margir sem hlógu að mér.“

,,Sem dæmi, Wayne Rooney, hann mætti í sandölum á æfingar og var í stuttbuxum, ég var við hliðina á honum klæddur í mitt fínasta.“