Komst upp með morð í 40 ár og þurfti aldrei að svara til saka – Nauðgaði og myrti fjölda kvenna – DV

0
144

Árið 1981 stöðvaði lögreglukonan Debra Sue Corr bíl sem ók þvers og kruss um veginn.   Grunaði hana að bílstjórinn væri undir áhrifum áfengis.  Sem reyndar var rétt en það sem Corr vissi aftur á móti ekki var að ökumaðurinn, Joe Michael Ervin, var raðmorðingi.

Og Debra Sue Corr varð hans síðasta fórnarlamb. 

Það var Corr daglegt verkefni að takast á við stúta undir stýri, hún skipaði honum út úr bílnum og handjárnaði, og var því alls ekki viðbúin skyndilegri árás Ervins. Þrátt fyrir handjárnin, náði hann byssu Corr og skaut hana í höfuðið. 

Debra Sue Corr lést samstundis. Hún var 26 ára gömul. 

Debra Sue Corr Það var eitthvað….

Vegfarandi, 19 ára piltur, hafði séð að eitthvað gekk á og kom gekk að bílnum til að bjóða fram aðstoð sína og skaut Ervin hann einnig og tók á rás. Pilturinn lifði þó blessunarlega af en tæpara mátti það ekki standa. Hann komst rétt tímanlega undir læknishendur. 

Lögregla var snögg að finna Ervin, hann var einfaldlega heima hjá sér og önnum kafinn við  að reyna að saga af sér handjárnin þegar lögreglu bar að. 

Hann var handtekinn en hengdi sig í klefa sínum.  Hann skildi eftir miða þar sem hann játaði morðið á lögreglukonunni. 

En sögu Joe Michael Ervin lýkur ekki þar. 

Það var eitthvað við Ervin, og hegðun hans fram að látinu, sem angraði lögreglumenn og fóru þeir að rýna í fortíð hans. Var hann sterklega grunaður um fjögur morð, framin á tímabilinu 1978 til 1981. 

En hann var látinn og því lítið hægt að gera. 

Það var ekki fyrr en með tilkomu DNA tækninnar að hinir hryllilegu glæpir Erwin komu loks fram í dagsljósið. 

Joe Michael Ervin Framdi fyrsta morðið 18 ára

Joe Michael Ervin var fæddur í Texas árið 1951 og framdi hann fyrsta morðið aðeins 18 ára gamall. 

Hann gekk þá upp að bíl sem lagður var við keiluhöll, dró upp byssu og skaut farþega í hálsinn. Sá var 21 árs gamall, hét Rodney Bonham og lést hann fjórum dögum síðar af sárum sínum.

Af hverju hann skaut Bonham er ekki vitað en þegar að fréttist að Bonham hefði ekki lifað árásina af, hringdi Ervin í föður Bonham og sagði honum að sér þætti leitt að sonur hans væri látinn. 

,,En við deyjum öll einhvern tíma. Mér þykir samt leitt að hafa skotið hann,” sagði Ervin og lagði á. 

Það var umsvifalaust gefin út handtökuskipun á Ervin en hann var horfinn. Boðin voru peningaverðlaun hverjum þeim sem gæti gefið upplýsingar um dvalarstað hans en án árangurs. 

Ervin var þá kominn til Denver i Colorado og kallaði sig Joe Michael Erwing og á milli áranna 1970 og 1977 framdi hann fjölda glæpa, meðal annars nauðganir, innbrot og líkamsárásir.

Þótt ótrúlegt megi virðast var hann aðeins einu sinni handtekinn en aðeins dæmdur til stuttrar vistar á geðdeild. 

Um leið og Ervin losnaði hélt hann áfram glæpaferli sínum og bætti verulega í. Hann hóf að myrða konur af miklum móð.  

Morðin á konunum

Í desember 1977 barði Ervin að dyrum hjá Madeleine Furey-Livaudais. Sú var 33 ára útgefandi vinsæls tímarits og tveggja barna móðir. Hann yfirbugaði Furey-Livaudais þegar hún kom til dyra, dró hana inn í svefnherbergi, nauðgaði henni og stakk svo til bana. 

Rannsókn á morðinu á Furey-Livaudais var lítli sem engin og málinu fljótlega stungið ofan í hina yfirfullu skúffu óleystra mála. 

Tveimur árum síðar fannst hin 53 ára gamla Delores Barajas stungin til bana i húsasundi. Hún var á leið í vinnuna og var þetta hennar síðasti vinnudagur því hún hafði fengið boð um betra starf og hugðist flytja frá Colorado. 

Hafði Barajas verið afar spennt yfir framtíðinni sem aldrei varð. 

Í desember 1980 hvarf hin 27 ára Gwendolyn Harris en hún hafði síðast sést á bar í finni kantinum ásamt vinum. Hún fannst daginn eftir í húsasundi, stungin til bana. 

Eitt ógeðfelldasta morðið sem Ervin framdi var að stinga til bana 17 ára stúlku, Antoinette Parks, í janúar 1981. Hún fannst á engi og var komin sex mánuði á leið. 

Antoinette Parks, Gwendolyn Harris og Madeleine Furey-Livauda voru meðal fórnarlambanna. Réttlæti?

Öll ofangreind morð voru óleyst til fjölda ára. Og á meðan gekk Joe Michael Ervin laus eins og ekkert væri. 

Það var ekki fyrr en í janúar í fyrra að lögreglan í Denver gaf út yfirlýsingu um að DNA úr Joe Michael Ervin hefði fundist á líkum allra kvennanna. Og til að vera fullvissir um sekt hans voru tekin DNA sýni úr ættingjum Ervin. 

Það var engin vafi á að Ervin hafði myrt allar konurnar og því verið raðmorðingi.

En hversu marga hann myrti í raun veit enginn. 

Það var fjölskyldum kvennanna léttir að vita loksins hver hefði banað ástvinum þeirra en fjöldi þeirra kom fram í fjölmiðlum og lýsti yfir sorg sinni yfir að konurnar fengu aldrei réttlæti.

Joe Michael Ervin hafði tryggt að honum yrði aldrei refsað fyrir gjörðir sínar með því að hengja sig í klefa sínum.