Kona á tíræðisaldri lét lífið á heimili sínu – Syni hennar varð óglatt þegar hann sá hvað sjúkraliðinn sem kom í útkallið hafði reynt – DV

0
93

Sjúkrabíll var kallaður að heimili 94 ára konu í bænum Shrewbury í Bretlandi í júní í fyrra, en samkvæmt tilkynningu hafði hún misst meðvitund í garði sínum.Sjúkraliðar mættu á svæðið og reyndu endurlífgun en konan var svo úrskurðuð látin á vettvangi.

Einn sjúkraliðanna var Mark Titley, 58 ára gamall. Hann fór inn á heimili konunnar til að sjá hvort þar væri að finna fyrirmæli um að konan vildi ekki endurlífgun. Það sem hann vissi þó ekki þá var að eftirlitsmyndavél var á heimilinu.

Náðist hann því á upptöku gramsa í litlum plastkassa á borði við innganginn sem var fullur af seðlum, lyfta seðlunum upp, telja þá og stinga svo 60 pundum í buxnavasa sinn. Síðan leit Mark í kringum sig og tók þá eftir myndavélinni og skilaði þá peningunum aftur í kassann.

Sonur konunnar sá síðar upptökuna og tilkynnti atvikið til lögreglu og greindi svo frá að honum hefði orðið óglatt að sjá þetta athæfi, að sjúkraliði hafi ætlað að stela af móður hans nokkrum mínútum eftir að hún lét lífið.

Mark neitaði til að byrja með sök í málinu og sagði lögreglu að hann hafi ætlað að passa upp á peninginn og afhenda þá fjölskyldu konunnar. Hann gekkst þó síðar við því að hafa ætlað að stela peningunum og var hann í kjölfarið dæmdur í 18 vikna skilorðsbundið fangelsi. Honum var einnig gert að sinna samfélagsþjónustu í 120 klukkustundir, greiða 530 pund í kostnað og 187 í miskabætur.

Hann er ekki starfandi sjúkraliði í dag en hann mun sjálfur hafa tekið ákvörðun um að láta af störfum.

Sonur konunnar, Mike Drage, sagði í samtali við fjölmiðla eftir að refsing Titleys var ákveðin.

„Heldur einhver að 120 klukkustunda samfélagsþjónusta sé raunverulegt réttlæti fyrir þetta athæfi? Þetta er ekki réttlæti. Ég ætla ekki að láta þetta kyrrt liggja og ætla að biðja dómstóla að endurskoða ákvörðun sína. Það er það eina sem ég get gert.“

Hann bætti svo við:

„Hann smánaði samstarfsmenn sína. Hann smánaði neyðarþjónustuna og hann smánaði mannkynið með hátterni sínu.“