5 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Konurnar í skólanum fengu áfall þegar þær sáu viðtalið við Jón Pál – „Það varð allt vitlaust“

Skyldulesning

Jón Páll Pálmason knattspyrnuþjálfari var til viðtals í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá sem kom út í gær. Jón Páll var þjálfari Víkings Ólafsvíkur framan af sumri en er í dag hjá yngri flokkum FH.

Í þættinum var rifjað upp atvik frá sumrinu 2011 þegar Jón Páll var þjálfari Fylkis í efstu deild kvenna. Hann fór í frægt viðtal við Fótbolta.net eftir tap gegn Val það sumarið. „Það sem gerist þegar kvenfólk tuðar í karlmönnum að þeir annað hvort bogna og gefa eftir, eða þeir forheldast í skoðun sinni og verða gjörsamlega óþolandi,“ sagði Jón Páll í viðtalinu árið 2011.

Jón Páll fékk sekt frá KSÍ vegna atviksins. „Hann er bara heigull, þetta er algjör heigulskapur. Hann bognar undan vælinu í Valsstelpunum. Ég held að það væri langbest að fá heyrnarlausa menn til þess að dæma leikinn, sem heyra ekki vælið og eru með pung til þess að dæma helvítis leikinn eins og menn,“ sagði Jón Páll en fremur í viðtalinu fræga.

Jón Páll ræddi atvikið við Andra Geir Gunnarsson og rifjaði upp þennan tíma en hann var kennari í grunnskóla þetta árið. „Ég var að kenna 6 ára bekk í Reykjavík á þessum tíma, það var kennarafundur. Maður var að lesa alltaf fyrir þau 8:30 á morgnana og konunum í skólanum fannst maður yndislegur strákur, rólegur. Svo er þessu hent upp á skjá á kennarafundi, svipurinn á konunum sem höfðu alltaf talið mig góðan og ungan mömmustrák. Þegar þær sáu þetta, það var óborganlegt,“ sagði Jón Páll í Steve Dagskrá.

„Þetta er dónaskapur, ég fék hámarkssekt frá KSÍ og átti hana skilið. Ég mótmælti dómnum ekki, ég myndi ekki gera þetta í dag. Það eru tíu ár síðan. Það varð allt vitlaust.“

Þáttinn má heyra hér að neðan.

Innlendar Fréttir