4 C
Grindavik
18. maí, 2021

Körlum aftur boðið að fá bóluefni AstraZeneca

Skyldulesning

Sóttvarnalæknir hefur útvíkkað þann hóp sem fær bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19. Verður körlum á öllum aldri og konum yfir 55 ára nú boðið í bólusetningu með efninu. 

Fram að þessu hafði bóluefnið einungis verið í boði fyrir 70 ára og eldri hér á landi eftir að notkun þess hófst á ný í lok mars. Hlé var um tíma gert á bólusetningu með efninu á meðan hugsanlegar aukaverkanir voru rannsakaðar. Lyfjastofnun Evrópu tilkynnti á dögunum að möguleg tengsl væru milli sjaldgæfra tilfella blóðtappa og bólusetningar með bóluefni AstraZeneca en flest tilfellin hafi greinst hjá konum yngri en 60 ára.

Fram kemur á vef landlæknis að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi fengið álit sérfræðinga í blóðstorkuvandamálum á Landspítala varðandi þá hópa sem frekar ætti að bólusetja með mRNA bóluefnum á borð við Moderna og Pfizer-BioNTech.

Verður eftirfarandi hópum boðið annað bóluefni en AstraZeneca:

  • Konur undir 55 ára (vegna aukinnar grunnáhættu yngri kvenna á blóðtappamyndun í heilaæðum umfram karla)
  • Einstaklingar með fyrri sögu um blóðtappa í bláæðum án þekktra áhættuþátta (sjálfsprottna bláæðasega), hvort sem þeir eru á blóðþynnandi lyfjum eða ekki
  • Einstaklingar með undirliggjandi mikið aukna hættu á bláæðasegum svo sem sjúklingar
  1.  með beinmergsfrumuaukningu á borð við langvinnt mergfrumuhvítblæði, frumkomið rauðkornablæði, sjálfvakið blóðflagnablæði og frumkomin beinmergstrefjun – þar með taldir sjúklingar með JAK2 stökkbreytingar
  2. með PNH 
  3. með lupus anticoagulant/antiphospholipid syndrome, það er sjúklingar með sjálfsmótefni sem auka hættu á bláæðasegum
  4. á lenalidomid meðferð við beinmergsmeinum

Einstaklingar sem þetta á við um verða merktir sérstaklega í bólusetningakerfinu og ættu að fá boð í mRNA bólusetningu en ekki Vaxzevria þegar kemur að bólusetningu þeirra. Stefnt er að því að ljúka merkingunni fyrir lok apríl. 

Þeir sem þetta á við um sem hafa nú þegar afþakkað boð í bólusetningu eða ekki mætt eiga þá von á að fá nýtt boð eftir það og þá í mRNA bóluefni. Ef einhver telur sig eftir það ranglega hafa fengið boð í Vaxzevria sem tilheyrir hópunum hér að ofan er rétt að hafa samband við heilsugæslu.

Fréttin verður uppfærð.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir