7 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Kristín segir framhjáhald geta verið það besta sem kemur fyrir – „Rosalega mismunandi hvað hentar fólki“

Skyldulesning

Kristín Tómasdóttir, fjölskyldumeðferðarfræðingur sem svarar spurningum lesenda DV í fjölskylduhorninu, var í viðtali hjá Andra Frey Viðarssyni í Sunnudagssögum á Rás 2. Þar ræddi hún starf sitt sem fjölskyldumeðferðarfræðingur en hún vinnur einna helst við að hjálpa pörum og hjónum með sambönd sín.

Pörin sem Kristín hjálpar eru jafn ólík og þau eru mörg og sömuleiðis eru vandamál þeirra ólík. „Fólk getur komið til mín af þremur ástæðum. Það er í fyrsta lagi ef fólk vill gera parasambandið sitt betra, ef það vill breyta ágætu eða vondu yfir í gott. Svo getur fólk komið því það veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga með sambandið, það eru mjög margir á þeim stað. Svo er hægt að koma ef fólk vill skilja,“ segir Kristín. „Sambönd eru það sem fólki er mjög kært og þegar fólk kemur til mín er því mjög mikið niðri fyrir, vill virkilega laga eða breyta.“

Kristín talar um að hafa hjálpað pörum þar sem mikið hefur gengið á í sambandinu. „Ég hef unnið með fólki sem hefur beitt maka sinn ofbeldi og það er oft þannig að þegar pör eru í átökum eru þau í mikilli taugaspennu heima hjá sér og það á auðvelt með að framkalla þessa taugaspennu hjá hvort öðru,“ segir Kristín. Hún segir pörin þó vera sjaldnar taugaspennt þegar þau eru komin inn til hennar því þá hafa þau velt málinu betur fyrir sér. „Það er mikið hlegið og gaman í vinnunni og ég hugsa rosalega oft bara, djöfull er þetta skemmtilegt því fólk er ógeðslega skemmtilegt. Fólk gerir mikið grín að sér og margt í parasamböndum er ógeðslega fyndið.“

„Rosalega mismunandi hvað hentar fólki“

Framhjáhald er eitt af því sem Kristín ræðir í þættinum hjá Andra. Þar segir hún að þrátt fyrir að flestir hugsi að sambandið myndi enda ef upp kemst um framhjáhald þá vilja flestir reyna að halda í sambandið eftir það. „Ég hef séð dæmi þess að framhjáhald sé það besta sem hefur komið fyrir par því það er upphafið að einhverju nýju. Upphafið að einhverju sem kemur upp á yfirborðið og þarf að breyta.“

Þá segir Kristín að yfirleitt vill sá sem hélt framhjá gera betur og sér eftir því sem var gert. Hún segir að oft sé hægt að laga eða bæta ýmislegt en einnig bendir hún á að fólk er byrjað að hugsa öðruvísi um sambönd en áður. „Hugmyndir okkar um parasamband er orðnar miklu meira fljótandi og við mættum vera miklu opnari. Það er rosalega mismunandi hvað hentar fólki. Margir eru í fjölkærum samböndum, það eru pör sem hafa upplifað framhjáhöld og það hefur styrkt sambandið þeirra en svo er líka fólk sem fattar eftir framhjáhald að þau eiga ekki að vera saman og það er því kannski bara það besta sem hefur komið fyrir.“

Innlendar Fréttir