1.3 C
Grindavik
6. febrúar, 2023

Kristinn krefst rannsóknar á andláti konu sinnar – „Hræðileg mistök og vanhæfni frú Landlæknir“

Skyldulesning

Kristinn Eiðsson hefur skrifað landlækni opið bréf þar sem hann krefst rannsóknar á andláti eiginkonu sinnar, Þórunnar Haraldsdóttur, sem lést þann 24. febrúar síðastliðinn.

Hann segir konuna sína hafa kvalist í meira en tvö ár þar til greining fékks á veikindum hennar og hún lést síðan tæpum mánuði eftir að hun var lögð inn á sjúkrahús. Þá kom í ljós að hún var með krabbamein í nýrum sem hafði dreift sér yfir í lifrina. „Sem segir manni það að meinið hafði verið að vaxa í langan tíma. Á þeim tíma var hún búin að fara í áðurnefndar rannsóknir og myndatökur,“ skrifar Kristinn í opna bréfinu sem er vægast sagt átakanlegt.

Auk þess að gagnrýna vinnubrögð lækna harðlega er hann einnig furðu lostinn yfir því hversu illa honum gengur að fá í hendur nauðsynleg gögn varðandi sjúkrasögu hennar og aðdraganda andlátsins.

Þórunn var aðeins 64ra ára þegar hún lést, kona á besta aldri. Kristinn segir í samtali við DV: „Við ætluðum okkur að verða gömul saman.“ En sá draumur er úti. Þess í stað þar hann, mánuði eftir fráfall hennar, að standa í stappi við kerfið til að fá gögn sem hann óskar eftir.

Að setjast við tölvuna og þurfa að skrifa þetta bréf til þín, frú Landlæknir, hefði mér sennilega ekki dottið í hug að gera fyrr en ég las bréf Þórarins Hafdal Hávarðssonar, í DV fyrir skemmstu. Þar lýsir hann veikindum konu sinnar og baráttu hennar við að fá greiningu, sem kom að lokum, en var þá orðið of seint. Saga konunnar minnar, Þórunnar Haraldsdóttur, er því miður, næstum því nákvæmlega sú sama. Nema það að hennar veikindi hófust fyrir rúmum tveimur árum.

Hún var of oft, að mínu mati, hjá lækninum sínum sem sendi hana í rannsóknir á rannsóknir ofan vegna verkja en aldrei virtist koma neitt út úr þeim rannsóknum og henni sagt að þetta væru bara bólgur og að hún þyrfti bara að fara til sjúkraþjálfara. Gerði hún það samviskusamlega, nema þegar verkirnir voru hreinlega óbærilegir vegna veikindanna, allt þar til hún fór á spítalann 26. janúar síðastliðinn.

Læknirinn hennar og í það minnst einn annar læknir á okkar heilsugæslustöð, létu hana oftar en ekki bara hafa sterkar verkjatöflur (Parkodin Forte). Hún var send í alls konar myndatökur þ.á.m. segulómun, röntgen og fleira sem ég kann ekki að nefna, auk blóðrannsókna sem voru framkvæmdar í hvert sinn sem hún fór í þessar myndatökur, á LSH, Orkuhúsinu og Domus Medica. Þrátt fyrir að taka sterk verkjalyf allan þennan tíma og að vera hjá sjúkraþjálfara, þá löguðust verkirnir ekki og ekkert kom út úr þessum rannsóknum sem hún fór í. Hún notaði einnig hita og kælimeðferð á verkina en ekkert dugði. 

Það er ekki fyrr en ég fer með hana á heilsugæsluna í Ögurhvarfi, 25. janúar síðastliðinn, að eitthvað kemur í ljós. Læknirinn þar hafði samband strax daginn eftir, 26. janúar, og óskaði eftir því að Þórunn færi upp á spítala til frekari greiningar þar sem hann sagðist sjá bletti á myndinni auk sýkingar í blóðinu. Ég hringi um leið á sjúkrabíl og hún er flutt á bráðadeild Borgarspítala. Þar er hún í tvo daga í rannsóknum og í framhaldinu svo send á nýrnadeild LSH þar sem hún er í nokkra daga, þar til hún er lögð á gjörgæsludeild vegna mikils hita sem hún fékk (40°) og sýkingar. Þar var hún í þrjá daga þar til hún er send á krabbameinsdeild þar sem hún lést 24. febrúar síðastliðinn, tæpum mánuði eftir að hún var fyrst lögð inn. Það sem kom í ljós, var að hún var með krabbamein í nýrum, sem hafði svo dreift sér yfir í lifrina. Sem segir manni það að meinið hafði verið að vaxa í langan tíma. Á þeim tíma var hún búin að fara í áðurnefndar rannsóknir og myndatökur.

Konan mín þurfti að kveljast í yfir tvö ár þar til greining fékkst á veikindum hennar og hún deyr tæpum mánuði eftir innlögnina. Hún var svo sterk í þessu öllu að hún þurfti að hugga okkur feðgana þrjá, fremur en við hana. Hún að sjálfsögðu grét vegna áfallsins, sem hún fékk þegar læknirinn á krabbameinsdeildinni sagði henni frá meininu og að ekkert væri hægt að gera. Meinið var ekki skurðtækt, ekki hægt að nota geisla né lyf við því. Þannig að það var bara líknandi meðferð sem hún fékk.

 Eftir þessar fréttir var hennar eina ósk að lifa nógu lengi til þess að sjá nýjasta barnabarnið sem var væntanlegt í heiminn, og fermingu elsta barnabarnsins. Hún náði hvorugu. Nýja barnabarnið sem hún var búin að bíða svo lengi eftir fæddist 28. febrúar, fjórum dögum eftir andlátið, og fermingin verður í apríl. 

Að læknirinn hennar hafi ekki skoðað gögnin hennar betur, ef hann hefur þá gert það yfirleitt, eða séð hversu mikið heilsu hennar hrakaði, er mér óskiljanlegt. Að ónefndum öllum þeim sem gerðu á henni rannsóknir. 

Konan mín hefði ekki þurft að deyja svona fljótt, það hefði átt að vera hægt að bjarga henni með betri greiningu og meðhöndlun, sem var bara ekki gert. 

Hvað þurfa margir að deyja frú Landlæknir, áður en að læknar byrja að skoða öll gögn sem þeim eru send, betur en þeir virðast gera margir hverjir, og koma þannig í veg fyrir ótímabær dauðsföll?

Hér er um að ræða alvarleg mistök og vanhæfni lækna, sem stytta sér leið og láta sjúklinga bara fá töflur til þess að bjarga öllu. Sem það gerir svo sannarlega ekki. 

Að þessu öllu sögðu, þá spyr ég einnig; hvers vegna þurfa aðstandendur að standa í stappi við að fá gögn afhent við missi ástvina sinna? Afhverju er ekki til miðlægur gagnagrunnur þar sem læknar geta flett upp nauðsynlegum gögnum um sjúklinga og skoðað þegar á þarf að halda? Þar á meðal þú frú Landlæknir. 

Samkvæmt samtali við lækni á krabbameinsdeildinni, þá er svona gagnagrunnur ekki til. Þeir þurfa sjálfir að leitast eftir gögnum sem þeir þurfa á að halda. Einnig varð ég var við mikið samskiptaleysi milli deilda á LSH meðan konan mín var þar inni. Upplýsingar um það sem átti sér stað á einni deild, voru ekki aðgengilegar á þeirri næstu. Mikilvægar upplýsingar um ástand konunnar minnar og það sem á undan hafði gengið. Að árið sé 2022 og slíkur gagnagrunnur sé ekki til, er með öllu óafsakanlegt.

Ég krefst þess að andlát konu minnar verði rannsakað í þaula. Ég krefst réttlætis gagnvart konu minni og mér sjálfum því hér er ég að ræða um hræðileg mistök og vanhæfni frú Landlæknir og slíkir læknar eiga hreinlega að missa starfsleyfi sitt.

Ég vil samt að lokum þakka innilega og hrósa starfsfólki LSH, þá sérstaklega þeim hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum sem önnuðust konuna mína. Það var einlæg ósk hennar að starfsfólkið fengi meira hrós og þakklæti og að launin þeirra endurspegluðu þeirra frábæru og óeigingjörnu störf.

Með einlægri von um bjartari framtíð og skilvirkara heilbrigðiskerfi,

Kristinn Eiðsson.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir