kristrun-seld-fyrir-324-milljonir-krona

Kristrún seld fyrir 324 milljónir króna

Kristrún RE-177 hefur verið seld til Færeyja. Ljósmynd/Þór Jónsson

Fiskkaup ehf. gekk frá samningum um sölu á Kristrúnu RE-177 (eldri) 19. mars síðastliðinn og er söluverðið 17 milljónir danskra króna, jafnvirði rétt rúmlega 324 milljóna íslenskra króna. Kaupandinn er færeyska útgerðin 31.1.2011 Sp/f í Sandi á Sandey.

Kristrún var smíðuð 1988 í Tomrefjord í Noregi af skipasmíðastöðinni Solstrand Slipp og Båtbyggeri. Skipið er 47,7 metrar að lengd, 9 metra breitt og 764,98 brúttótonn. Færeyska útgerðin hefur í áraraðir gert út línuskipið Sandshavið og er það jafnaldri Kristrúnar, en þó töluvert minna. Skráð lengd Sandhavsins er 33,34 metrar, breiddin 7,5 metrar og er skipið 335 brúttótonn.

Ný Kristrún RE-177 kom til hafnar í Reykjavík 22. nóvember á síðasta ári og var nýja skipið sagt stærra, öflugra og betur búið en það gamla. Nýja skipið var keypt frá Noregi og er það töluvert yngra, enda smíðað 2001. Sú nýja er 50 metrar að lengd og 11 metrar á breidd. 


Posted

in

,

by

Tags: