2 C
Grindavik
16. janúar, 2021

Kúgun Dana?

Skyldulesning

Jónas Jónsson frá Hriflu mótaði söguskoðun Íslendinga framan af 20. öld en ,,Íslandssaga handa börnum I?II, Rvík 1915?16, 2. útg. 1920?21, 3. útg. 1924 og 1927, 4. útg. 1928“ var nokkuð neikvæð í garð Dana. Þessi kennslubók var víða kennd í skólum fram yfir 1970, einhver langlífasta kennslubók landsins.

Að sögn Jónasar vildi hann, „skýra sögulega viðburði og andlegt líf með því að lýsa yfirburðum forystumanna þjóðanna á hverjum stað og tíma“. Hitt bæri að varast að fara eftir erlendum og framandi kenningum þar sem sögunni vindur fram eins og skriðjökli niður fjallagljúfur svo að „mannlífsstraumurinn sígur undan sínum eigin þunga“.

Þess má geta að Bodil Begtrup, sendiherra Danmerkur hér á landi snemma eftir seinni heimsstyrjöldina, kvartaði undan Dana andúð í kennslubókum Jónasar frá Hriflu. Jónas skrifaði Íslandssöguna í rómantísku ljósi, það er nokkuð ljóst og útlendingarnir voru vondir margir hverjir.

Upp úr 1970 kemur fram ný kynslóð sagnfræðinga, margir lærðir erlendis. Ný sýn og raunsæ fæst á Íslandssöguna. Upp er boðið Ísaland eftir Gísla Gunnarsson er enn tímamótaverk en þar fer hann í einokunarverslunina og áhrifa hennar út frá hagsögunni.

Í dag eru íslenskir fræðimenn almennt jákvæðir gagnvart Dönum og valdastjórn þeirra á Íslandi.

Talað hefur verið um 500 ára stjórn Dana á Íslandi en svo var ekki í raun. Íslenskir valdamenn, bæði kirkjunnar og höfðingar (embættismenn íslenskir) réðu hér öllu fram undir 1550 (Danir náðu þá undir sig völd og eignir íslensku kirkjunnar) og í raun voru áhrif Dana takmörkuð fram yfir 1600 eða þar til þeir náðu tökum á Íslandsversluninni.

Lítum á hvað íslenskir söguritarar segja í dag.

Í ágætri greinagerð eða yfirliti yfir sögu lands og þjóðar, ætlað erlendum sendiherrum, er stiklað á stóru í sögu þjóðarinnar. Þar segir:

,,Sautjánda öldin hefur jafnan verið talin myrk öld í sögu landsins og Dönum kennt um. Óstjórn þeirra og kúgun ásamt rétttrúnaði, galdrafári og illu árferði hafi leitt til þeirra erfiðleika sem hrjáðu þjóðina á þessu tímabili. Nú á sér stað nokkur endurskoðun þessarar söguskoðunar og m.a. hefur verið bent á að Danir hafi stjórnað í samræmi við þær hugmyndir sem almennt voru lagðar til grundvallar ríkisstjórn í öðrum löndum á tímabilinu. Þeir hafi ekki stjórnað af mannvonskunni einni saman. Rétttrúnaðurinn átti einnig að hafa bundið menn á klafa og hamlað framförum en nú benda menn á að á 17. öld hafi Danir staðið framarlega á sviði vísinda og að Íslendingar sem stunduðu nám við Kaupmannahafnarháskóla hafi sannarlega notið góðs af því.“

Þessar skýringar eru í sjálfu sér góðar og gildar. Og einokunarverslunin hafi verið samkvæmt verslunarhugmyndum tímans og fáfræði Íslendinga mikil á þessum tíma. Engin kerfisbundin kúgun eða mannhatur átti sér stað eða kynþáttaníð (þótt litið hafi verið niður á ,,afdala Íslendinginn sem bjó í ,,jörðinni“).

En það er alveg ljóst, að einangrun Íslands frá umheiminum (verslun við Þjóðverja og Englendinga sem var mikil og gjöful fyrir Íslendinga var bönnuð) kom í veg fyrir bæja- og borgarmyndun og eflingu sjávarútvegs og seinkaði þessa þróun um tvær aldir (á sama tíma var mikil fólksfjölgun og þéttbýlismyndun í fullum gangi annars staðar í Evrópu, t.d. Noregi).

Undir stjórn Dana liðu Íslendingar hungursneyðir, afskiptaleysi og voru svo tæknilega afdankaðir, að leita þarf til Balkanskaga til að finna vanþróaðri land en Ísland. Það skar sig úr vegna fátækar og vanþróunar. Meira segja Færeyingar voru betri settir.

Allt gerist þetta á vakt Dana. Þeir voru svo áhugalausir, að þeir létu íslenska yfirstéttarinnar halda í forna stjórnhætti og afturhaldsstefnu og níðast á alþýðu í góðum friði. Beinlínis að komu í veg fyrir að hún gæti fært sér bjarg í bú frá sjávarútveginum með höftum og bönnum.

Sagan segir okkur beinum orðum, að um leið og Íslendingar fengu eitthverju um ráðið um eigin forlög, þar á meðal fjármál sín eftir 1874, að þá fóru hlutirnir að gerast í alvöru. Vegir byggðir, brýr smíðaðar, hafnir byggðar, bankastarfsemi hófst, þéttbýlismynd, sjávarútvegur fór að ná sér á strik o.s.frv.

Ef til vill var engin mannvonska á ferðinni og ekki einum eða neinum að kenna um hvernig fór.

Hins vegar saug danska konungsveldið fjármagnið frá Íslandi í formi verslunararðs og skatta. Allt tiltækt fé sem sem hefði getað bætt hag land og þjóð fór út úr landi.

Eina sem við fengum voru nokkur steinhús handa íslensku elítunni og fáeina embættismenn á launum til ná í skatta og tryggja að verslunararðurinn færi úr landi.

Ef hægt er að segja í einni setningu eitthvað um stjórn Dana og afleiðingar hennar, þá væri hún eftirfarandi: ,,Vítavert afskiptaleysi um stjórn landsins sem leiddi til vanþróunar og afturhalds lands og þjóðar í tæpar fjórar aldir.“

Kannski hafði Jónas frá Hriflu bara rétt fyrir sér eftir allt saman?


Innlendar Fréttir