Kunningjar og vinnufélagar 32 ára karlmanns sem grunaður er um að hafa numið hina þrettán ára gömlu Filippu á brott í Danmörku um helgina hafa varpað ljósi á hann í dönskum fjölmiðlum í dag. Danska þjóðin fylltist skelfingu þegar fréttir af hvarfi stúlkunnar birtust í dönsku pressunni á laugardag. Það var svo á sunnudag að Filippa fannst á lífi en maðurinn er grunaður um að hafa numið hana á brott og nauðgað henni ítrekað í þann sólarhring sem hann hélt henni.
Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur í dönskum fjölmiðlum, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. maí næstkomandi. Hefur hann játað sök í málinu að hluta.
Mikið einn Se og Hør ræddi við nokkra sem þekkja til mannsins en hann er sagður hafa sinnt sölustörfum í nokkuð stóru fyrirtæki undanfarin fimm ár.
Fyrrverandi vinnufélagar mannsins segja að hann hafi haldið sig að mestu til hlés og ekki átt í miklum samskiptum við kollega sína. Þá segir fyrrverandi bekkjarfélagi hans að hann hafi verið „skrýtinn“ einstaklingur. „Hann var mikið einn og það var erfitt að ná augnsambandi við hann,“ segir hann.
Hugsar til fjölskyldu hans Æskuvinur hans sem var einn besti vinur hans í grunnskóla segir að þeir hafi náð vel saman. „Hann var mjög almennilegur og við urðum fljótt góðir vinir,“ segir hann en þeir voru oft saman eftir skóla þar sem þeir spiluðu fótbolta saman. „Hann var mjög góður í stærðfræði og hjálpaði mér oft,“ segir hann en tekur fram að hinum grunaða hafi oft verið strítt þegar hann var í skóla.
„Hann var með kippi í andlitinu sem hann réði ekki við og það olli honum erfiðleikum þegar við fórum í eldri bekkina,“ segir hann og bætir við að þá hafi samnemendur hans byrjað að stríða honum. „Hann bar ekki hönd fyrir höfuð sér. Ef einhver sagði eitthvað við hann þá þagði hann,“ segir æskuvinur mannsins og bætir við að það hafi komið honum mjög á óvart að heyra af handtöku hans.
„Mér hefði aldrei dottið í hug að hann gæti gert eitthvað svona. Ég hugsa líka mikið um fjölskyldu hans því hún hlýtur að vera að ganga í gegnum mjög erfiða tíma.“