Flestir hafa eflaust heyrt sögur um að köngulær skríði inn í munninn á fólki á meðan það sefur. Kona ein, sem býr í Hondúras, lenti í svipaðri lífsreynslu en þó kom annar líkamshluti við sögu. Kona leitaði á heilsugæslustöð í höfuðborginni Tegucigalpa því hún átti erfitt með svefn. Ástæðan var að hún fann fyrir einhverju mjög undarlegu „þarna niðri“ að því er segir í umfjöllun Dagbladet.
Kvensjúkdómalæknir skoðaði konuna sem var mjög óróleg og æst. Hann ákvað að skoða kynfæri konunnar. Brá honum mjög við það sem hann fann og er hann þó vanur að þurfa að draga smokka og kynlífsleikföng út úr kynfærum kvenna.
Að þessu sinni var það skordýr sem hann fann og dró út. „Ég tók eitthvað út sem líkist kakkalakka,“ sagði læknirinn, sem heitir Marco Cálix, og bætti við að kakkalakkinn hafi verið dauður.
Ekki er vitað hvernig kakkalakkinn endaði uppi í kynfærum konunnar sem býr úti á landi. Ekki er heldur vitað hvort hún hafi hlotið áverka eftir þennan óboðna gest.