3 C
Grindavik
25. febrúar, 2021

Kvótaúthlutun geri út af við fyrirtækið

Skyldulesning

Aron Franklín og Helen María Björnsdóttir segja að rekstrargrundvöllur sé …

Aron Franklín og Helen María Björnsdóttir segja að rekstrargrundvöllur sé brostinn með kvótaúthlutun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ferðaþjónustufyrirtæki í Öræfasveit sem sérhæfir sig í jökla- og íshellaferðum telur að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins sé brostinn í kjölfar kvótaúthlutunar Vatnajökulsþjóðgarðs vegna fjöldatakmarkana á Breiðamerkurjökul. Telja þau gagnrýnivert að ekki hafi verið horft til heimabyggðar við úthlutun. Það sé úr takti við það sem fram kemur í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.

Fyrirtækið heitir Local guide of Vatnajökull og er einn stærsti vinnustaðurinn í Öræfasveit með 16 starfsmenn. Aron Franklín og Helen María Björnsdóttir reka fyrirtækið. Segja þau úthlutunina bera með sér 75-80% samdrátt óháð því Covid-ástandi sem nú ríkir. Kalla þau eftir því að úthlutunin verði dregin til baka og farið verði eftir því sem lagt var af stað með í útboðsgögnum. Öðrum kosti blasi við uppsagnir í viðkvæmri byggð. 

Takmarkanir á Vatnajökulþjóðgarð voru teknar upp á þessu ári. Þannig auglýsti þjóðgarðurinn eftir umsóknum um gerð samninga um íshellaferðir og jöklagöngur á Breiðamerkurjökul, Falljökul/Virkisjökul, Skeiðarárjökul og Skálafellsjökul.

Stór hluti til nýrra fyrirtækja og endursöluaðila

Á Breiðamerkurjökli var ákveðið að takmarkað væri við 650 manns á dag á jökulinn, en samkvæmt tölum síðasta árs voru allt að 950 sem fóru á jökulinn þegar mest lét.

Hjónin Aron Franklín og Helen María Björnsdóttir reka fyrirtækið og segjast hafa fengið úthlutað 38 ferðamönnum á dag í aðalhellinn á Breiðamerkurjökli. Miðað við það dregst reksturinn saman um 80% miðað við það sem hann var í fyrra. „Við erum búin að fara í miklar fjárfestingar og vorum t.a.m. að byggja starfsmannahús auk þess að koma okkur upp bílum til að sérhæfa okkur í íshellaferðum og jöklagöngum,“ segir Aron.

Benda þau á að þriðjungi sæta hafi verið úthlutað til nýrra fyrirtækja sem ekki hafi sinnt þessari tegunda ferðaþjónustu, m.a. til endursöluaðila. „Þessi endursöluaðili fær t.a.m. 50% fleiri sætum úthlutað en við. Það finnst okkur sértakt,“ segir Helen María. Þá bætir hún því við að fyrirtæki með einn starfsmann hafi fengið 32 sætum úthlutað í aðalhellinn en þau 38 sætum.

Íshellaferðir njóta sívaxandi vinsælda.

Íshellaferðir njóta sívaxandi vinsælda.

Munu ekki geta sinnt öryggismálum 

Að sögn þeirra var lagt upp með í útboðsgögnum að tekið yrði tillit til uppbyggingar fyrirtækja, aðstöðu, menntunar starfsmanna auk þess sem lögð hafi verið áhersla á að fyllsta öryggis sé gætt. Er það ein ástæða þess að fyrirtækið ákvað nýlega að fara í frekari fjárfestingu í tækjabúnaði. Óljóst sé hvernig önnur fyrirtæki sem ekki hafi sérhæft sig í þessari tegund ferðaþjónustu geti gætt öryggis með sama hætti, ef reynslan sé ekki til staðar. Telja þau þetta til marks um að Vatnajökulsþjóðgarður hafi ekki farið eftir eigin útboðsreglum við úthlutunina.

„Fyrirtækin á svæðinu hafa lent verst í þessu. Þau hafa byggt sig upp yfir langan tíma og hafa sinnt öryggismálum hvað best. Fyrirséð skerðing á starfsmannafjölda gerir það að verkum að við munum ekki geta haft mannskap til að sinna þeim öryggismálum sem þarf til,“ segir Helen.

Benda þau á að í meðferð Alþingis við setningu laga um Vatnajökulsþjóðgarð komi fram að eitt af markmiðum með stofnun þjóðgarðsins hafi verið að leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn er að hluta til myndaður úr löndum sem heimamenn áttu. Þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að atvinnustefna þjóðgarðsins eigi að vera leið til að virkja frumkvæði heimamanna og efla þátttöku þeirra í reglulegri starfsemi þjóðgarðsins.

Hverju kallið þið eftir?

„Við viljum ógilda þá úthlutun sem fór af stað í svona miklum flýti. Tekin verði nokkur skref til baka og unnið með það sem lagt var upp með í útboðsgögnum áður en farið var að takmarka starfsemi með þessum hætti,“ segir Aron. Eins að horft verði til fyrirtækja sem hafi byggt sig upp fyrir þá þjónustu sem boðið er upp á á jöklinum. Bendir Aron á að vegna færri ferðamanna vegna Covid-faraldursins liggi ekki á að klára úthlutunina. Ef unnið verði út frá þessari úthlutun til framtíðar sé rekstrargrundvöllur fyrirtækja á svæðinu í hættu.   

Sammála atvinnustefnunni 

„Okkur finnst atvinnustefnan í raun og veru mjög góð og þar á meðal að takmarka aðgengi að jöklunum. En í annarri grein laga um Vatnajökulsþjóðgarð er talað um að styrkja heimabyggð og allt sem við byggjum upp heima er náttúrlega að skila sér til samfélagsins. Við erum að fá ungt fólk aftur heim í sveitina sem býr og byggir upp sitt líf hér. Ferðaþjónustan er aðalatvinnugreinin í sveitinni og nærsveitum. Það þarf að horfa til víðara samhengis áður en kvótanum er úthlutað með þessum hætti,“ segir Aron.

Aron Franklín er af þriðja ættlið sem sinnt hefur ferðaþjónustu …

Aron Franklín er af þriðja ættlið sem sinnt hefur ferðaþjónustu í Öræfum.

80 manns bjuggu í Öræfasveit árið 2008 en nú búa þar 180 manns. Hefur vöxturinn verið drifinn af ferðaþjónustu. Fyrirtækið er einn stærsti vinnustaðurinn með heimilisfesti í Öræfum. Benda þau á að áhrifin á atvinnustarfsemi á svæðinu gætu orðið víðtækari. T.a.m. hafi leikskóli verið starfræktur í Öræfum undanfarin ár og hætt við því að rekstrargrundvöllur hans sé í hættu ef starfsöryggi hverfur á svæðinu.

Innlendar Fréttir