Aron Guðmundsson skrifar 7. maí 2023 10:00
Kosningar til sjö meðstjórnenda í framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fóru fram á íþróttaþingi sambandsins um helgina. Fimm konur og tveir karlar fengu brautargengi í kosningunni og voru kynjahlutföll í framkvæmdastjórninni því jöfnuð.
Fyrir sátu sex karlar og tvær konur í framkvæmdastjórn ÍSÍ en í kosningu gærdagsins, sem gildir til næstu fjögurra ára, hlutu fimm konur og tveir karlar brautargengi.
Það eru þau Daníel Jakobsson, Elsa Nielsen, Hafsteinn Pálsson, Hjördís Guðmundsdóttir, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Olga Bjarnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Einnig buðu sig fram Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands og Hörður Oddfríðarson, fyrrverandi formaður Sundsambandsins og nú ritari þess, en þeir fengu ekki kosningu.
Framkvæmdastjórn ÍSÍ er því nú skipuð átta körlum og sjö konum en fyrir sátu í framkvæmdastjórn þau Lárus L. Blöndan forseti ÍSÍ, Þórey Edda Elísdóttir, Garðar Svansson, Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, Hörður Þorsteinsson, Úlfur Helgi Hróbjartsson, Viðar Garðarsson og Valdimar Leó Friðriksson.
Gunnar Bragason, Ása Ólafsdóttir, Ingi Þór Ágústsson og Knútur G. Hauksson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir framkvæmdastjórn ÍSÍ.