2 C
Grindavik
15. maí, 2021

Kynþroski í vegi nýtingu jarðvarma í bleikjueldi

Skyldulesning

Bleikja í Mývatni. Rannsóknir sýna að hitastig hafi veruleg áhrif á vöxt bleikjunnar, en kynþroski fisksins er mesta fyrirstaða þess að hægt sé að nýta jarðvarma til að auka vaxtarhraða í bleikjueldi.

Ljósmynd/Árni Einarsson

Hitastig er sá umhverfisþáttur sem mest hefur áhrif á vaxtarhraða fiska. Flestar tegundir sýna aukinn vaxtarhraða með hækkandi hita upp að kjörhitastigi, þegar hámarksvexti er náð. Heitu vatni hefur því löngum verið beitt í fiskeldi sem vaxtarhvata. Hins vegar hefur kynþroski verið ein helsta fyrirstaða þess að hægt sé að nýta jarðvarma til að auka vaxtarhraða í íslensku bleikjueldi.

Hraði vaxtar er ekki það eina sem hitastig hefur árif á samkvæmt nýlegri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um rannsókn á nokkrum verkþáttum sem hafa áhrif á kynþroska í bleikjueldi. Fram kemur að hitastig sé einnig sá umhverfisþáttur sem hefur hvað mest áhrif á utangenaerfðir.

Utangenaerfðir eru eigin- leikar sem skráðir eru í erfðaefnið án þess að vera skrifaðir inn í DNA-röðina sjálfa. Með utangenaerfðum getur hitastig haft áhrif á þætti eins og beinabyggingu, vöðvavöxt, aldur við kynþroska og höfuðlag fiska.

Getur haft slæmar afleiðingar

Nýlegar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa leitt í ljós að hraður vöxtur við „kjörhita“ á seiðastigi getur haft slæmar afleiðingar seinna á æviskeiði fiska.

Fiskur sem alinn er við háan hita hefur aukna tilhneigingu til að verða kynþroska áður en sláturstærð er náð. Ótímabær kynþroski er stórt vandamál í fiskeldi þar sem hann leiðir til aukinna affalla, minni fóðurnýtingar, lægra afurðaverðs og hægari vaxtar.

„Komið hefur í ljós að kynþroski í bleikjueldi veldur mun meira tjóni en áður var talið, en samkvæmt nýjustu upplýsingum má áætla að vaxtarskerðing af völdum kynþroska sé að jafnaði um 10%, sem leiðir til taps í sláturverðmætum upp á 500-600 milljónir á ári á landsvísu,“ segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar eftir Tómas Árnason, Theódór Kristjánsson og Ragnar Jóhannsson.

Í eldisstöðinni í Landssveit, og í nýju stöðinni í Grindavík hefur Matorka einkum ræktað bleikju.

Ljósmynd/Óli Haukur Mýrdal

Í tilrauninni voru þrír verkþættir prófaðir; skimun fyrir VGLL3-erfðabreytileika sem stýrir 40% af erfðabreytileika kynþroskaaldurs í laxi, eldi á bleikjuseiðum við mismunandi hitaferla og gelding bleikjuseiða með genaþöggun.

Tafir urðu á raðgreiningu sýna við skimun á VGLL3 vegna Covid-19. Verkefnið er því enn í gangi en búið er að raðgreina 100 sýni. Gert er ráð fyrir að verkþátturinn klárist á þessu ári.

Eldið á bleikjuseiðum við mismunandi hitaferla er stutt á veg komið en bleikjuseiði voru alin á hitastigum á milli 7 og 12°C. Mikill munur var á vaxtarhraða seiðanna. Seiðin verða síðan öll alin við sama hitastig.

Vísbendingar eru um að kynkirtlar séu stærri við slátrun eftir því sem fiskurinn er stærri á seiðastigi. Það snýst svo við þegar fiskurinn hefur náð sláturstærð.

Tókst ekki að gelda

Niðurstöður tilraunar við geldingu bleikjuseiða með genaþöggun ollu vonbrigðum að því er kemur fram í skýrslunni. Talsverð afföll urðu á hrognastiginu, mest meðal hrogna sem böðuð voru í sterkum lausnum og minnst í viðmiðunarhópum sem ekki voru baðaðir í lausnum. Niðurstöðunar gáfu til kynna að styrkur efna og lengd böðunar hafi neikvæð áhrif á lifnun hrogna.

Þá er ljóst að ekki tókst að gelda beikjuhrognin þar sem seiðin voru greind með dæmigerða kynkirtla við 10 gramma þyngd. Ekki var marktækur munur á kynjum.

Hafin er önnur tilraun á genaþöggun á bleikjuseiðum þar sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunar eru bjartsýnir á að slík þöggun geti gengið eftir, enda benda rannsóknir stofnunarinnar til árangurs við geldingu laxahrogna með genaþöggun. Sambærilegum aðferðum er nú beitt við nýja tilraun.

Áfram verður því reynt að þróa aðferðir til þess að losna við kynþroska án þess að hafa þau neikvæðu áhrif sem þrílitnun hefur í för með sér.

Ljóst er að það myndi valda grundvallarbreytingu á forsendum bleikjueldis hér á landi.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir