Lá við að koddar blotnuðu…

0
230

Lá við að koddar blotnuðu…

March 31 22:46 2013

Nú þegar páskahátíðin er í hámarki, hamast flestir við að gáma í sig páskaeggjum af öllum stærðum og gerðum. Hér um borð hefur það verið til siðs að skipverjar fái páskaegg á páskadag. Ekkert bólaði hinsvegar á eggjum á páskadagsmorgun og þegar líða tók á hádegi voru menn orðnir úrkula vonar um að fá eitthvað viðeigandi fyrir þennan dag.

Elvar og Hjalti Már kampakátir…

Voru menn þungir á brún, stuttorðir, svöruðu aðeins með eins atkvæðis orðum og útlit var fyrir að flestir færu páskaeggjalausir í koju…. Menn voru klárir í að skella sér í fósturstellinguna í kojunni og sumir meira að segja reiknuðu með að koddinn myndi blotna, þegar tilfinningarnar fengju útrás, eftir að ljósin slokknuðu….

Baddi réð sér ekki fyrir kæti….

En skyndilega birti yfir öllum er Kokkurinn bar fram hvert páskaeggið á fætur öðrum. Nú var eins og hulu væri lyft af skipverjum, alltíeinu hlógu allir og gerðu að gamni sínu, blik sást í hverju auga, og ljóst þótti að menn færu glaðir í hjarta í kojuna, koddar yrðu þurrir og lífið væri dásamlegt!

Já… það er merkilegt hvað súkkulaði getur áorkað…..