Það gengur á með norðaustanstrekkingi í dag en sums staðar verður allhvasst eða hvasst seinni partinn, samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings. Lægðir langt suður og suðvestur í hafi stjórna enn veðrinu.
„Dálítil slydda eða rigning á norðanverðu landinu og snjókoma til fjalla, en rignir fyrir austan, úrhelli framan af morgni á Austfjörðum og síðan úrkomuminna í bili. Bætir aftur í rigningu eftir hádegi,“ segir í hugleiðingunum.
Nú er fremur milt loft yfir landinu og vekur veðurfræðingurinn athygli á því að viðvarnir eru í gildi vegna vatnsveðurs á Austurlandi og hættustig vegna skriðuhættu á Seyðisfirði. Appelsínugul viðvörun vegna rigningar er einnig í gildi til klukkan níu og síðar gul viðvörun.
„Á morgun, hvessir talsvert norðvestanlands og gengur á með snjókomu eða slyddu fyrir norðan, rignir við austurströndina, en annars úrkomuminna. Um helgina er síðan búist við norðanhríðarveðri fyrir norðan, en bjarviðri syðra og lækkandi hitatölum.“