-1 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Lækka stýrivexti niður í 0,75%

Skyldulesning

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig, niður í 0,75%.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að mikil fjölgun Covid-19-smita nú í haust og hertar sóttvarnir valdi því að dregið hafi úr þeirri viðspyrnu sem hófst á þriðja ársfjórðungi eftir sögulegan samdrátt á öðrum ársfjórðungi.

„Efnahagshorfur hafa því versnað og gerir nóvemberspá Peningamála ráð fyrir 8,5% samdrætti landsframleiðslu á þessu ári sem er ríflega 1 prósentu meiri samdráttur en spáð var í ágúst. Einnig er spáð minni hagvexti á næsta ári,” segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Verðbólga hefur aukist frá í vor og var 3,6% í október. Hins vegar hafa verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma lítið breyst.

Segir í yfirlýsingunni að þótt verðbólga hafi aukist tímabundið og horfur séu að hún verði meiri en búist var við í ágúst, geri traustari kjölfesta verðbólguvæntinga peningastefnunefnd kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti.

Gefur nefndin að lokum í skyn að hún geti gripið til frekari aðgerða ef þörf er á: „Peningastefnunefnd mun áfram nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða, m.a. kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.“

Innlendar Fréttir