Lærisveinar Helga Sig byrjuðu frábærlega uppi á Skaga – Fjölnir marði Ægi – DV

0
66

Lengjudeild karla hófst í kvöld með fimm leikjum.

Uppi á Skaga var spilaður stórleikur þar sem ÍA tók á móti Grindavík.

Gestirnir fóru afar vel af stað og kom Dagur Ingi Hammer Gunnarsson þeim yfir strax á 4. mínútu leiksins. Guðjón Pétur Lýðsson tvöfaldaði forystu Grindvíkinga með frábæru aukaspyrnumarki á 27. mínútu.

ÍA náði ekki að ógna forystu Grindvíkinga í seinni hálfleik og sanngjarn 0-2 sigur því niðurstaðan.

Á Seltjarnarnesi gerðu Grótta og Njarðvík þá jafntefli. Hinn 15 ára gamli Tómas Jóhannessen kom heimamönnum yfir á 32. mínútu.

Fyrirliði gestanna, Marc McAusland, jafnaði á 78. mínútu. Lokatölur 1-1 í miklum baráttuleik.

Fjölnismenn þurftu þá 90 mínútur og vel af uppbótartíma til að sigra nýliða Ægi, sem flestir spá ekki góðu gengi. Eina mark leiksins skoraði Bjarni Gunnarsson úr vítaspyrnu.

Þróttur R. tók á móti Leikni R. í Reykjavíkurslag. Daníel Finns Matthíasson kom Leikni yfir snemma leiks og þannig var staðan allt þar til 20 mínútur lifðu leiks. Þá jafnaði Aron Snær Ingason fyrir Þrótt.

Gestirnir kláruðu hins vegar leikinn með mörkum Hjalta Sigurðarsonar og Omar Sowe þegar um tíu mínútur lifðu leiks.

Loks vann Afturelding sterkan 1-3 útisigur á Selfossi. Arnór Gauti Ragnarsson kom þeim yfir eftir hálftímaleik en Guðmundur Tyrfingsson skoraði svo fyrir Selfyssinga úr víti eftir um tíu mínútur af seinni hálfleik.

Þegar tíu mínútur voru eftir fengu gestirnir víti og skoraði Aron Elí Sævarsson úr því. Sævar Atli Hugason innsiglaði svo 1-3 sigur.