6 C
Grindavik
2. mars, 2021

Lag Birnis og Palla „pepp og ofbeldi á sama tíma“

Skyldulesning

Úr myndbandi við lag Birnis og Páls Óskars, Spurningar, sem …

Úr myndbandi við lag Birnis og Páls Óskars, Spurningar, sem kom út í gær.

Ljósmynd/Sticky Records

Á hádegi í gær frumsýndu rapparinn Birnir og poppgoðið Páll Óskar Hjálmtýsson nýtt lag sem ber titilinn Spurningar. Lagið segja þeir vera um þær spurningar sem kvikna þegar maður á í sambandi við aðra manneskju, nú eða bara í sambandi við sjálfan sig. Í samstarfi við Magnús Leifsson, leikstjóra, gerðu þeir svo metnaðarfullt og sumarlegt myndband þar sem Palli birtist Birni sem guðleg vera, ef til vill með svörin við téðum Spurningum.

Listræna ferlinu líkir Palli við gerð stórmynda í Hollywood þar sem hæfileikar hvers og eins er nýttir til fullnustu, enda er afraksturinn eftir því og viðbrögð aðdáenda líka. Laginu hefur nú verið streymt mörgþúsund sinnum á Spotify og yfir 20 þúsund manns hafa horft á myndbandið á Youtube fyrsta sólarhringinn.

Birnir og Palli settust niður með blaðamanni til þess að ræða nýtt lag, listræna ferlið og hvernig það er að vera tónlistarmaður í samkomubanni.

Melódían náði Palla strax

Spurðir að því um hvað lagið er og hvernig hugmyndin að því kviknaði bítast þeir um hver eigi að svara.

„Þú byrjar,“ segir Birnir.

„Nei, þú. Pælingin kemur frá þér,“ svarar Palli.

„Já ok þá. Sko, oft þegar maður er í kannski ástarsambandi þá hefur maður alls konar spurningar sem maður veit ekki endilega svörin við. Svo getur þetta alveg eins líka bara átt við um samband við sjálfan sig. Það kvikna endalaust nýjar og nýjar spurningar sem kannski er erfitt eða ekki hægt að svara. Og þetta getur verið frekar erfitt ástand að vita ekkert hvað hin manneskjan vill eða hvað þú vilt.“

Palli tekur undir og segir að melódía lagsins hafi náð honum strax. 

„Þegar ég heyrði demo-ið fyrst að þá stökk ég strax á melódíuna og hvað textinn var klæðskerasniðinn að melódíunni. Orkan í textanum er einhvern veginn sú sama og í melódíunni. Þetta er brjálæðislega mikilvægt í öllum popplögum. Og ég þykist nú vita hvað er gott popp og hvað ekki,“ segir Palli og hlær.

Læra hvorir af öðrum

Palli er nú öðru sinni á skömmum tíma að gera tónlist með ungum og upprennandi tónlistarmanni en hann gaf út lagið Stjörnur ásamt Chase Anthony árið 2019. Palli segist halda sér á tánum með því að vinna með ungum tónlistarmönnum og kveðst læra mikið á því.

„Ég læri fyrst og fremst að halda mér á tánum. Og ég er stöðugt að læra eitthvað nýtt af því ég trúi því að tilgangur lífsins sé að maður lifir til að læra. Þetta er í alvörunni bara tilgangur lífsins. Ef þú ert ekki tilbúinn að læra eitthvað nýtt þá kallar það bara á stöðnun, ef þú vilt að allt sé alltaf bara eins, skilurðu, að þá ertu bara að skrifa ávísun upp á eigin óhamingju.

Þannig að núna til dæmis er ég að læra alveg böns, hvernig til dæmis bara markaðssetning á nýjum lögum gengur fyrir sig. Ég man eftir geisladiskatímabilinu, skilurðu.“

„Ekki ég,“ stingur Birnir inní.

„Ha-ha nei, en þá voru bara allt aðrar leikreglur, fattarðu? Og það er bara brjálæðislega gott fyrir mig að vera stöðugt á skólabekk og vera tilbúinn til þess að læra. Lykillinn er einmitt að þykjast ekki alltaf kunna allt og vita allt – ekki fara á þann stað að halda að þú sért kominn með þetta.

Ég fíla það að vera á tánum, ég fíla að vita ekki alveg hvað gerist næst og það er mest spennó. Spennan í þér fer inn í lagið, áhorfandinn pikkar það upp og þetta er bara ógeðslega mikilvægt í öllu poppi af því popp verður að vera á tánum. Það er bara eðli popps.“ 

Spurður að því hvernig sé að vinna með Palla segir Birnir að hann læri mjög margt, bæði á sjálfan sig og annað. Hann hefur í gegnum tíðina lært að fylgja því sem maður trúir og vera sannur sjálfum sér og sínu.

„Ég læri náttúrlega mjög margt á því að vera með Palla, bæði bara á bransann og líka bara nálgun á tónlist yfir höfuð, þú veist. Maður nálgast þetta af virðingu og fer smá varlega, en samt á sama tíma, að þegar maður hefur trú á þessu þá verður maður bara að fylgja því. Fyrir kannski unga tónlistarmenn, eða þá sem eru ekki búnir að vera sérstaklega lengi í þessu, er alltaf þessi pæling um að maður veit kannski ekki alveg hvað maður er að gera. En stundum veit maður það bara nákvæmlega, eins og í þessu lagi einhvern veginn, og þá bara keyrir maður á það og leggur hart að sér.“

Pallli og Þór Elíasson, tökumaður, á tökustað.

Pallli og Þór Elíasson, tökumaður, á tökustað.

Ljósmynd/Sticky Records

Metnaðarfullt myndband

Í samtali við mbl.is segir Magnús Leifsson, leikstjóri tónlistarmyndbandsins, að það hafi verið erfitt að sitja á svona góðu myndbandi í jafnlangan tíma og raun bar vitni, en myndbandið var tekið upp í fyrrasumar eins og áður sagði. Magnús segist alltaf hafa viljað vinna með Birni og þegar sameiginlegur vinur þeirra Geoffrey Þ. Huntington Williams leiddi þá saman varð eitthvað stórkostlegt til. 

„Fyrst var auðvitað pælingin að koma þessu út í sumar – þetta er svona sumarhittari. En svo þurfti að ráðast í lagfæringar á laginu sjálfu og svona þá þurfti aðeins að bíða, það þurfti allt að vera fullkomið. Svo núna var bara ekkert hægt að bíða lengur,“ segir Magnús.

En skýtur ekki skökku við að gefa út svona sumarlegt myndband í janúarhretinu?

„Jú, það má kannski vel vera,“ segir Magnús og hlær. „Það lýsti því einhver frekar vel á Twitter, fannst mér, þegar hann sagði sko að þetta myndband væri mesta pepp í heimi en á sama tíma mesta ofbeldi í heimi.“

Magnús segir að það hafi verið mikil gæfa að vinna með Birni og Palla. Áðurnefndur Geoffrey leiddi Magnús og Birni saman og þeir náðu strax vel að vinna hvor með öðrum. Fullt af hugmyndum var fleygt fram, hver annarri klikkaðri og það var frábært hvað Birnir var opinn fyrir allskonar skrítnum pælingum að sögn Magnúsar.

„Geoffrey hjá Sticky Records framleiddi myndbandið ásamt Bergþóri Mássyni. Við Geoffrey höfum verið vinir lengi og þegar hann benti mér á að Birnir væri með plötu í vinnslu og ætlaði núna að gefa út þetta lag þá leiddi hann okkur saman í kjölfarið. Og það var geggjað að vinna með Birni. Birnir er þessi rappari sem kemur með hip-hop drungann sem er algjör andstæða við hamingjusprengjuna sem Palli er. Það var ógeðslega gaman að vinna með þessar andstæður.“

Maggi leikstjóri og vinur hans Geoffrey, útgefandi hjá Sticky Records …

Maggi leikstjóri og vinur hans Geoffrey, útgefandi hjá Sticky Records og eigandi Priksins í Bankastræti.

Ljósmynd/Sticky Records

Eins og gömlu Hollywood-hittararnir

Palli segir að allt listræna ferlið við gerð lags og myndbands hafi verið einstaklega góð reynsla, allt hafi verið fagmannlega unnið og vel gert. Hann líkir verkinu öllu við klassískar Hollywood-bíómyndir á borð við Breakfast at Tiffany´s og Lawrence of Arabia og segir sögu af gömlum manni.

„Ég heyrði einu sinni sögu af manni, einhverjum svona gömlum karli í Hollywood sem var búinn að framleiða ég veit ekki hvað margar myndir, Breakfast at Tiffany´s og Lawrence of Arabia og ég veit ekki hvað og hvað, og það var verið að veita honum svona heiðursverðlaun á Óskarsverðlaunahátíðinni.

Og hann heldur á Óskarnum í ræðupúltinu og segir: „Fólk er alltaf að spyrja mig hvernig ég fór að því að gera allar þessar bíómyndir og alla þessa tímalausu hittara, ég er sko með uppskriftina að því: Gerðu geggjað handrit upp úr bók eftir Truman Capote, láttu Blake Edwards leikstýra myndinni, láttu Henry Mancini gera músikina, láttu Audrey Hepburn leika aðalhlutverkið, komdu þessu þessu fólki inn í herbergi, lokaðu hurðinni og drulla ÞÚ þér út. Leyfðu og treystu fólkinu að það viti nákvæmlega hvað það er að gera.“

Það er eiginlega nákvæmlega þetta sem gerist í þessu lagi. Hver einasti kjaftur vissi nákvæmlega hvað hann var að gera, bæði í vinnu lagsins og síðan við vinnuna á þessu stóra myndbandi – hver einasti kjaftur á svæðinu var bara að gera það sem hann er bestur í. Og allir vissu nákvæmlega hvaða input þeir áttu að setja í þetta og það er þá sem þetta gengur upp.“

Myndbandið er metnaðarfullt. Af tökustað.

Myndbandið er metnaðarfullt. Af tökustað.

Ljósmynd/Sticky Records

Birnir tekur undir og segir að ferlið allt hafi verið lærdómsríkt og eftirminnilegt. Um myndbandið segir hann að það kallist skemmtilega á við lagið. Í upphafi viti enginn hvað fari í hönd. 

„Það sem mér finnst vera rosa fyndið við þetta myndband er að byrjunin er svona klassískt rapparapartý, þú veist „you´ve seen it all before“ fattarðu? En svo fer þetta bara í allt aðra átt og lagið er í rauninni eins og það. Þegar það byrjar þá heyrist þessi djúpa rödd og þú veist ekkert hvert þetta er að fara.“

„Og þá birtist ég allt í einu,“ skýtur Palli inn í.

„Já, akkúrat, sem bara guðleg vera. Sem fer þér bara vel, verð ég að segja.“ 

„Málið er líka með mig er að ég fatta alltaf bara nýja vinkla á allt svona bara eftir á. Mig langaði alltaf að vinna með Magga, sem gerði myndbandið. Og hann bara pitch-aði hugmyndinni á mig, sem var bæði fyndin og rosa falleg, og svo líka einmitt við eitthvað lag sem er sorglegt en hefur á sama tíma einhvers konar von, fattarðu? Mér fannst þetta bara vera negla.“

Viðspyrnuárið mikla!

Birnir og Palli segja báðir að þeir séu spenntir fyrir nýju ári og geti ekki beðið eftir að fá að spila tónlistina sína fyrir framan aðdáendur. Palli segir að Spurningar geti ekki hafa komið út á betri tíma þar sem það er fyrirboði um betri tíma – um viðspyrnuárið mikla. Kórónuveirufaraldurinn hefur eðlilega sett strik í reikninginn og spurðir að því hvernig það hafi verið að vera tónlistarmaður á síðasta ári virðast þeir sammála um að ræða það ekki sérstaklega og horfa heldur fram á við.

„Það er nú ástæðan fyrir því að lag kemur út núna,“ segir Palli.

„Við tókum það upp í lok árs 2019, svo kemur auðvitað bara Covid. En við náðum að skjóta myndbandið núna í sumar þegar alveg 500 manns máttu koma saman, þannig það er alveg grænt gras og heiður himinn í myndbandinu. Svo tókum við bara þá ákvörðun að EKKI gefa þetta lag út árið 2020, gefum þetta út árið 2021!

Það er nákvæmlega þessi stemning og þetta vibe sem við þurfum akkúrat núna – þetta er viðspyrnuárið mikla og við erum að keyra okkur aftur í gang. Og ég get ekki beðið eftir að þessi þjóð verði bara bólusett, sem fyrst sprautuð bara í bak og fyrir, þannig að við getum farið að öskursyngja þetta lag á klúbbnum í kjötheimum.“

Og er þetta fyrirboði fyrir betri tíma, mun núna dúndrast út tónlist frá ykkur á nýju ári?

„JÁ!“ segja þeir báðir í kór.

„Þú ert tilbúinn með plötu, er það ekki,“ segir Palli og horfir á Birni. „Og það stefnir allt í að það verði plata hjá mér líka.“ 

„Ef ég má hjálpa, þá væri ég mjög til í það,“ segir Birnir þá.

Palli svarar um hæl: „Let´s do it!“

Palli og Birnir á tökustað. Þeir gefa til kynna að …

Palli og Birnir á tökustað. Þeir gefa til kynna að árið í ár verði gott og að búast megi við nýrri tónlist frá þeim á viðspyrnuárinu mikla.

Ljósmynd/Sticky Records

Innlendar Fréttir